Baugur hefur ráðið Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem gestafyrirlesara á fundi sem fyrirtækið stendur fyrir innan skamms í speglasal Tívolísins í Kaupmannahöfn. Danskir fjölmiðlar voru að greina frá þessu.

Samkvæmt frétt Berlinske Tidene mun Clinton halda fyrirlestur á lokuðum fundi fyrir gesti og starfsmenn Baugs.

Í frétt blaðsins er upplýst að Baugur hafi ekki gefið upplýsingar um fundinn en þar kemur fram að fyrirlestur Clintons verður fyrir starfsmenn Baugs og sérstaka gesti fyrirtækisins.

Clinton er þekktur fyrir að vera einn dýrasti gestafyrirlesari heims. Síðast hélt hann fyrirlestur í Kaupmannahöfn í einkaklúbbi Börsens árið 2001. Þá var greint frá því að þóknun hans væri 800.000 krónur danskar fyrir fyrirlesturinn eða tæpar 10 milljónir króna.