Baugur hefur selt tískuvörukeðjuna MK One til breska félagsins Hilco en kaupverðið er ekki gefið upp.

Haft er eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, á vef breska blaðsins The Times að MK One passi ekki lengur inn í smásölueignasafn fyrirtækisins. Það sé því sátt við söluna.

Fréttir bárust af því í síðasta mánuði að Baugur væri að leita að kaupanda að MK One. Tískuvörukeðjan er með 172 verslanir á sínum snærum víðs vegar um Bretland.

Reksturinn hefur þó ekki gengið vel að undanförnu og á síðasta ári var 17,4 milljóna punda tap á honum, að því er fram kemur í The Times.

Salan á MK One er fyrsta stóra fyrirtækjasalan frá því Baugur hóf innreið sína á breskan markað fyrir átta árum.

Baugur keypti MK One árið 2004 fyrir 55 milljónir punda.