Stjórnendur Baugs í Kína telja markað fyrir 1500 verslanir í Kína en nú þegar starfrækir Baugur 50 verslanir þar. Þetta kom fram í ræðu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs, á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York í dag.

Jón Ásgeir rakti stuttlega sögu Baugs fyrir fundamönnum  og lýsti starfsseminni og umsvifum félagsins. Þá sagði hann stjórnendur Baugs sjá ný tækifæri í Kína, Indlandi og Rússlandi.

Hann sagði bresku vörumerkin í eigu félagsins geta orðið vinsæl á Indlandi og þar væri vaxandi markaður sem Baugur sæi fram á að taka þátt í.

Í ræðu Jóns Ásgeirs kom fram að samkvæmt nýjum tölum byggju flestir milljónamæringar heims í Moskvu og þar væri ógrynni tækifæra.