Baugur hefur átt í viðræðum um að kaupa breska skartgripaverslunarkeðju og stendur til að sameina keðjuna verslunum Goldsmiths, sem Baugur keypti fyrir einu og hálfu ári síðan, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Breska blaðið The Sunday Times segir í frétt í dag að fyrirtækið sem um ræðir sé breska félagið Mappin & Webb. Þar segir að kaupverðið sé 25 milljónir punda, eða um 2,7 milljarðar íslenskra króna.

Í frétt Sunday Times segir að Baugur ætli að sameina Mappin & Webb verslunum Goldsmiths og úr verði ein stærsta skartgripaverslunarkeðja Bretlands. Seljandinn er fjárfestingasjóðurinn European Acquisition Capital (EAC).