Baugur er að undirbúa kaup á um 50% hlut í flatbökukeðjunni Domino's, samkvæmt heimildamönnum Viðskiptablaðsins. Verðið á hlutnum hefur ekki verið gefið upp en heildarverð Dominos er talið vera rúmur milljarður. Stjórnendur Baugs vildu ekki tjá sig um málið í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Eignarhaldsfélagið B2B ehf. á rúmlega 90% hlut í Domino's á Íslandi en félagið er í eigu Birgis Þórs Bieltvedts. Birgir á tvö félög í viðbót sem nefnd eru B2B. B2B Holding A/S á meirihlutann í Domino's í Danmörku og réttinn á Domino's nafninu á Norðurlöndum. B2B Holding ehf. er svo þriðja félagið. Það félag á hlut í fjárfestingafélaginu M-Holding efh., sem hefur keypt um 90% hlut í dönsku stórversluninni Magasin du Nord. Baugur Group og Straumur fjárfestingabanki hf. komu einnig að kaupunum á Magasin du Nord.

Sjá nánar viðtal við Birgir Þór Bieltvedt í Viðskiptablaðinu í dag.