Newcastle United fótboltafélagið í Bretlandi á kröfu í þrotabú Baugs að fjárhæð 225.000 punda eða jafnvirði 37 milljóna íslenskra króna fyrir leigu á fyrirtækjastúku á St. James’ Park knattspyrnuvellinum fyrir tvö leiktímabil. Þetta er eitt af mörgu sem fram kemur í lista yfir lánadrottna Baugs sem lagður hefur verið fram í Bretlandi og greint er frá í breska blaðinu Telegraph.

Ýmislegt fleira er tilgreint í fréttinni, svo sem að Baugur skuldi samtals 600 pund eða jafnvirði nálægt 100 þúsund íslenskra króna fyrir fimm ,,stöðumælasektir vegna ,,Bentley bíls Jóns” eins og það er orðað. Þá eru tíndir til ýmsir fleiri reikningar af ólíku tagi en stærsta skuldin á listanum, upp á hundruð þúsunda punda, er frá fasteignafélagi fyrir leigu undir aðalstöðvar Baugs í Mayfair hverfinu í London.

Í fréttinni segir að þrátt fyrir gjaldþrot Baugs séu verslunarkeðjur félagsins, House of Fraser, Hamleys, Oasis og Iceland ennþá í rekstri en með nýrri eða breyttri eignaraðild. Aðeins einni verslunarkeðju, Principles, verði lokað.