Þegar blaðamenn eltu Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformann Baugs Group, út úr Útvarpshúsinu í Efstaleiti síðasta sunnudag eftir átakamikið viðtal við Egil Helgason þáttastjórnanda, sagði hann eftir ítrekaðar spurningar fréttamanna að skuldir Baugs væru einn milljarður punda.

Miðað við þann atgang sem hefur verið hér á landi undanfarið mætti halda að þessar skuldir væru helstu verðmætin í þrotabúi íslensku bankanna sem skilanefnd ríkissjóð vinnur nú með.

Ekki hefur farið framhjá neinum að það hefur verið mikil eftirsókn eftir þessum skuldum. Fyrst vakti athygli að kaupsýslumaðurinn Sir Phillip Green skyldi leggja leið sína hingað til lands í fylgd Jóns Ásgeirs og leggja tilboð fyrir viðskiptaráðherra.

Augljóst var að Green taldi sig hafa sterka samningsstöðu hvort sem tilboðið var upp á 5 eða 10% af verðmæti skuldanna. – Einfaldlega vegna þess að sá sem á skuldapakkann ræður hinum gríðarlegu eignum Baugs í Bretlandi.

En hverjar eru skuldir Baugs? Ekki er víst að svar Jóns Ásgeirs segi alla söguna og breskir fjölmiðlar hafa hent á milli sín tölum frá 1,5 milljarði punda upp í tvo milljarða punda.

Þegar rætt var um tilboð Greens mátti skilja sem svo að hærri upphæðin væri sú rétta. Ekki er víst að þessi tala skýrist á næstunni nema skilanefnd bankanna fari þá leið að bjóða út skuldapakka Baugs sem margir telja hið eina rétt í ljósi þess áhuga sem er á honum.

En pakkinn veltur einnig nokkuð á því hvaða getu Baugur hefur til að greiða skuldir sínar.

Í áðurnefndu viðtali sagði Jón Ásgeir að fyrirtæki Baugs hefðu verið í skilum til þessa. Það er ekki allskostar rétt og hefur Viðskiptablaðið undir höndum upplýsingar um að skuldabréf upp á 2,5 milljarða króna hafi fallið í gjalddaga um síðustu mánaðamót.

Greiðandi bréfsins var BG Capital Ltd, (nú Styrkur Invest) sem er að öllu í eigu Baugs Group. Skuldinni var lokið nokkrum dögum síðar en tímum óttuðust menn greiðsluhæfi Styrks og þar af leiðandi Baugs. Við næstu mánaðamót bíða nýir gjalddagar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið nú þegar á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .