Baugur hefur sett skartgripakeðjurnar Mappin & Webb, Goldsmiths og Watches of Switzerland í sölumeðferð. Þetta kemur fram í Retail Week sem segir að Ernst & Young hafi verið fengið til að sjá um endurskoðun á keðjunum, sem geti leitt til sölu þeirra.

Keðjurnar heyra undir félagið Aurum Holding, en Baugur er stærsti hluthafi þess félags. Retail Week segir að Don McCarthy, stjórnarformaður Aurum og hluthafi í Baugi hafi neitað að tjá sig um aðkomu Ernst & Young. Í fréttinni segir einnig að aðgerðirnar séu að frumkvæði stjórnenda Aurum og að sala sé ein af mögulegum niðurstöðum fáist rétt verð fyrir.

Kreppan slæm fyrir skartgripageirann

Aurum rekur 185 verslanir og þar starfa 2100 manns. Samkvæmt vefsíðu Baugs er áætluð velta í ár 314 milljónir punda, en samkvæmt Retail Week var veltan á tólf mánaða tímabilinu sem lauk í janúar 2008 262 milljónir punda. Í frétt Retail Week kemur fram að kreppan hafi komið illa við skartgripaverslanir og ástandið hafi ekki verið verra í þessum geira frá því snemma á síðasta áratug.