Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ósk Baugs Group um greiðslustöðvun á Íslandi hugsuð sem mótleikur við þeirri kröfu skilanefndar Landsbankans að fara fram á greiðslustöðvun BG Holding í Bretlandi.

Með þeim hætti telja þeir sig hafa betri stjórn á atburðarásinni.

Eigendur Baugs voru mjög ósáttir við þá beiðni skilanefndar Landsbankans að óska eftir greiðslustöðvun í Bretlandi en þeir telja hagsmunum sínum betur borgið með greiðslustöðvun og tilsjónarmanni hér heima á Íslandi.

Um leið töldu þeir að við það yrði greiðslustöðvun í Bretlandi óþörf. Sú ósk hefur hins vegar vakið hörð viðbrögð skilanefndar Glitnis sem vill fara með félagið beint í gjaldþrot eins og Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði samtali við vb.is.

Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir á morgun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Veðtrygging bankanna mun vera mjög mismunandi og eru ýmist í hlutabréfum Baugs Group eða undirliggjandi eignum.