Baugur er að vinna að skráningu félags í eignasafni sínu á hlutabréfamarkað, sagði Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Breskir fjölmiðlar höfðu eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, í síðustu viku að verið væri að undirbúa skráningu smásölufélags úr eignasafni Baugs og að skráningin gæti farið fram í Bretlandi. Baugur stóð fyrir skráningu bresku tískuvöruverslunarkeðjunnar Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands í fyrra.

Gunnar sagðist ekki geta sagt frá því hvaða félag í eignasafninu er ætlað að skrá, eða hvort Baugur hafi áhuga á skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Talið er að ekki sé farið að huga að skráningu Iceland-matvöruverslunarkeðjunnar enn, sem er að mestu leyti í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, þar sem félagið hefur nýlega verið endurfjármagnað og töluverður arður greiddur til eiganda þess. Einnig er ekki talið að átt sé við bresku heilsuvöruverslunarkeðjuna Julian Graves og te- og kaffiverslunarkeðjuna Whittards of Chelsea, sem Baugur og eignarhaldsfélagið tóku þátt í að kaupa í fyrra og áætlað er að sameina.

Fjármálasérfræðingar velta því fyrir sér hvort unnið sé að skráningu bresku tískukvörukeðjunnar Shoe Studio Group (SSG), en Baugur, ásamt Kaupþingi banka, er hluthafi í félaginu. Stuttu eftir að tekin var ákvörðun um að fleyta Mosaic Fashions á íslenska hlutabréfamarkaðinn var haft eftir Don McCarthy, forstjóra SSG, að hugsanlegt væri að félagið myndi elta Mosaic Fashions í Kauphöllina. McCarthy sagði í samtali við blaðamann Financial Sunday Express í júni í fyrra að áætlað hafi verið að feta í fótspor Mosaic Fasions. Ekki náðist í McCarthy þegar Viðskiptablaðið reyndi að ná tali af honum í London.

Sumir fjármálasérfræðingar telja það ekki vænlegt að skrá smásölufélög í Bretlandi vegna erfiðs rekstrarumhverfis. "Ég er ekki viss um að það sé eftirspurn eftir smásölufélögum á breska markaðnum," segir David Stoddart, miðlari hjá Teather & Greenwood-verðbréfafyrirtækinu, sem er í eigu Landsbankans. "Menn segja að jólaverslunin sé yfir væntingum en það er ekki hægt að segja á útkoman hafi verið frábær," segir Stoddart. Margir velta því fyrir sér hvort að íslenski markaðurinn sé betri kostur en sá breski.

SSG er meðal annars í eigu McCarthy, annarra stjórnenda, Baugs, Kaupþings banka og Kevin Stanford. Stjórnendur og McCarthy eiga um 70% hlut í félaginu. Hlutur Baugs er í kringum 8%.

SSG samþykkti að kaupa Rubicon Retail í febrúar á síðasta ári ári fyrir um 140 milljónir punda. Yfirtakan var fjármögnuð með lánum sem leidd voru af Kaupþingi banka. Principles og Warehouse- vörumerkin eru í eigu Rubicon Retail, en voru hluti af Arcadia þegar félagið var undir stjórn Stuart Rose, núverandi forstjóra Marks & Spencer, en var keypt út úr Arcadia fyrir um þremur árum.