Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, segir í Viðskiptablaðinu í dag að opnun nýrrar verslunar fyrirtækisins við Lambhagaveg 2 í Úlfarsárdal sé í biðstöðu. Hann segir að vegna óvissunnar í kjölfar bankahrunsins hafi opnun verið slegið á frest, en hægt sé að opna með skömmum fyrirvara eftir að ákvörðun hefur verið tekin um slíkt.

„Það er alls ekki þannig að Bauhaus sé að hætta við. Það er bara ómögulegt að segja á þessari stundu hvenær opnað verður. Maður gæti verið að tala um nokkrar vikur eða einhverja mánuði. Við viljum bara fara vel yfir hlutina og taka þá rétta ákvörðun á réttum tímapunkti.”

Halldór sagðist í ljósi ástands efnahagsmála á Íslandi samt ekki þora að segja af eða á um hvort biðin yrði hugsanlega lengri, eða eitt eða tvö ár. Hann taldi það þó frekar ólíklegt. Hins vegar væri ljóst að öll viðskiptamódel fyrirtækja hér á landi væru rústir einar eftir bankahrunið og nær ógjörningur að spá í framvinduna.

Bauhaus réð í haust fjölda starfsmanna sem áttu að taka þátt í opnun verslunarinnar í desember. Eftir hrun bankanna var öllum sagt upp og er Halldór því orðin einn eftir. Einnig var hægt á framkvæmdum við byggingu hússins, en þeim lýkur nú um miðjan janúar.

„Ef við fáum grænt ljós getum við opnað með mjög stuttum fyrirvara eða á þrem til fjórum mánuðum. Það er því allavega möguleiki að það gæti gerst í sumar, þó ekkert hafi verið staðfest."

Þá segir Halldór að Bauhaus hafi ekki viljað leigja frá sér húsnæðið sem gefi vísbendingar um vilja fyrirtækisins til að standa við áform um opnun. Sögusagnir hafa reyndar verið á kreiki um að komið hafi til tals að rífa húsið og flytja það á brott. Halldór sagðist kannast við slíkar sögur, en þær ekki verið staðfestar af Bauhaus í Þýskalandi.