*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 17. júlí 2021 15:36

Bauhaus enn ekki skilað hagnaði

Bauhaus á Íslandi tapaði 14 milljónum króna, sem er minna tap en í fyrra þegar félagið tapaði 26 milljónum króna.

Ritstjórn
Bauhaus á Íslandi á enn eftir að skila hagnaði.

Velta Bauhaus á Íslandi jókst úr 3,4 milljörðum í 4,2 milljarða króna á milli áranna 2019 og 2020, eða um 23%, og virðist það því hafa notið góðs af afleiddum áhrifum samkomutakmarkana á síðasta ári líkt og fleiri byggingavöruverslanir.

Rekstrarhagnaður félagsins jókst úr 24 milljónum króna í 222 milljónir króna. Þó var tap á rekstrinum upp á 14 milljónir króna miðað við 26 milljóna tap árið 2019. Félagið hefur enn ekki skilað hagnaði hér á landi. Tapið má að mestu skýra með gengistapi upp á 228 milljónir króna árið 2020 vegna veikingar á gengi krónunnar.

Launakostnaður hækkaði úr 576 milljónum króna í 638 milljónir króna og stöðugildum fjölgaði úr 73 í 74.

Eignir félagsins námu 1,65 milljörðum króna í lok árs 2020 og skuldir tæplega 1,4 milljörðum króna. Þar af nam skuld við tengda aðila ríflega 1,1 milljarði króna.