Íslensk byggingavörufyrirtæki hafa líkt og önnur fyrirtæki í landinu lifað tímanna tvenna undanfarinn áratug enda rekstur þeirra sveiflukenndur og litast ef til vill meira af efnahagssveiflum en margra annarra. Efnahagshrunið hafði umfangsmikil en jafnframt mismunandi áhrif á risana þrjá á markaðnum þ.e. BYKO, Húsasmiðjuna og Bauhaus. Niðursveiflan var djúp og uppbyggingin átti sér ekki stað á einni nóttu.

Erfitt að stíga inn á einsleitan markað

Segja má að Bauhaus, hafi enn ekki náð fullri fótfestu hér á landi. Eins og flestir muna hafði þýski byggingavörurisinn áætlanir um að opna verslun sína hér á landi árið 2007 og hóf því byggingu á risahúsnæði sínu í Grafarholtinu með það fyrir augum. Félagið frestaði þó snarlega opnun í kjölfar efnahagskreppunnar og stóð húsið því tómt allt fram til ársins 2012 þegar verslunin opnaði, fimm árum á eftir upphaflegum áætlunum.

Ef marka má síðustu ársreikninga Bauhaus hefur félagið náð til sín fremur litlum hluta af markaðnum saman borið við hin fyrirtækin tvö. Árið 2014 voru rekstrartekjur félagsins þannig rúmir 2 milljarðar króna en jukust svo lítillega árið 2015 og voru 2,2 milljarðar. Félagið hefur ekki enn skilað hagnaði, en tap félagsins dróst saman úr 610 milljónum árið 2014 í 79 milljónir árið 2015.

Þar spilar hins vegar inn í að aukið var við hlutafé fyrirtækisins um 2,2 milljarðar sama ár. BAHAG Baus Beiteilingungsgeselleschaft á 99% hlut í Bauhaus en BAUHAUS á Íslandi á 1% hlut í Bauhaus. Ásgeir Bachmann, framkvæmdastjóri Bauhaus, segist hins vegar sjá mikil tækifæri í núverandi viðskiptaumhverfi. „Við sáum mikinn viðsnúning árið 2016, hvað varðar fjölda heimsókna og sölu, umhverfið er allt að verða jákvæðara. Það hefur klárlega verið erfitt að stíga inn á markað sem hefur verið mjög einsleitur í tugi ára en viðskiptaumhverfið í dag er miklu betra en þegar fyrirtækið hóf starfsemi hér árið 2012. Kakan er orðin stærri og við erum að fá aðeins stærri skerf og við teljum okkur eiga mikið inni,“ segir Ásgeir.

Sér fyrir endann á erfiðleikunum

Ásgeir segir vert að benda á að Bauhaus hafi lækkað vöruverð til neytenda um allt að 20% me innkomu sinni á markaðinn. „Það hefur ef til vill ekki komið nægilega skýrt fram í umfjöllun síðastliðinna ára að innkoma Bauhaus ýtti mikið við samkeppninni sem segir manni það að það var svigrúm til verðlækkana á þeim tíma.“

Ásgeir segist nú sjá fyrir endann á erfiðri byrjun Bauhaus. „Jú, þetta á að vera búið. Þó að það hafi verið tap í rekstri til þessa þá er þetta bara hluti af því hvernig Bauhaus-vörumerkið vinnur og þetta er alls ekki fyrsta landið þar sem innkoman á markaðinn tekur tíma og fólk þarf að læra að þekkja vörumerkið Bauhaus. Það er alþekkt í Evrópu að það taki fyrirtæki fleiri ár að koma sér inn á markaði og ná þar fótfestu. Þetta er ekkert óeðlilegt og viðskiptamódelið gerir ráð fyrir þessu. Móðurfélagið í Þýskalandi er mjög ánægt með það hvernig fyrirtækið hefur verið að þróast hér á landi síðustu ár og Bauhaus er komið til að vera,“ segir Ásgeir.

Hann segir það mikilvægt fyrir alla sem koma að verslun og þjónustu að það komist á stöðugleiki á íslenskum markaði. „Framtíðin er björt ef við höldum stöðugleika í ytra umhverfinu. Ytra umhverfið er alveg gríðarlega mikilvægt. Það skiptir öllu máli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.