Stórar verslanakeðjur og fyrirtæki á borð við Bauhaus, Iceland, Lindex og Wow Air eru ekki tekin með í verðlagsvísitöluna sem Hagstofan reiknar út. Vísitalan ákvarðar hlutfall verðbóta sem falla á verðtryggð lán Íslendinga. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag en Hagstofan vildi ekki gefa upp hvaða fyrirtæki eru í úrtaki hennar.

Forsvarsmenn umræddra fyrirtækja staðfestu við Fréttatímann að ekki væri búið að hafa samband við þá af hálfu Hagstofunnar. Enn fremur kemur fram að í mars á hverju ári sé endurskoðað hvaða fyrirtæki séu tekin úr úrtakinu og hvaða ný fyrirtæki séu sett þangað inn. Albert Þór Magnússon, annar eiganda Lindex hér á landi segist hafa haft samband við Hagstofuna og fengið loðin svör um hvers vegna Lindex sé ekki inn í vísitölunni. Hann furðar sig á því hvers vegna svo sé.