Nú er ljóst að þýska byggingavöruverslunin Bauhaus mun opna hér á landi á laugardaginn.

Þetta kemur fram í auglýsingum frá Bauhaus í fjölmiðlum í dag en mikil leynd hefur ríkt yfir því hvenær verslunin hygðist opna. Sem kunnugt er hafði Bauhaus áætlað að opna verslun sína í lok árs 2008 en frestaði opnun í ljósi efnahagsástandsins hér á landi. Rúmlega 21.000 fermetra húsnæði verslunarinnar við Vesturlandsveg hefur því staðið autt í tæp fjögur ár.

Byrjað var að auglýsa eftir starfsfólki á ný rétt fyrir síðustu áramót. Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í byrjun þessa árs að um þúsund umsóknir hefðu borist í 60 til 70 stöður sem Bauhaus hyggst ráða í.

Búið var að manna flestar stöður í fyrirtækinu þegar til stóð að opna árið 2008 en í kjölfar bankahruns var öllum starfsmönnum sagt upp. Athygli vakti að um 650 sóttu þá um helstu stjórnunarstöður og um 1.250 manns sóttu um 150 auglýstar stöður hjá Bauhus í september 2008.

Undir lok síðasta árs sagði Halldór Óskar í samtali við Viðskiptablaðið, þegar tilkynnt var um kaup danska byggingavörurisans Bygma á Húsasmiðjunni, að það myndi ekki hafa áhrif á opnun Bauhaus hér á landi.

„Nú liggur fyrir við hvern við erum að keppa,“ sagði Halldór Óskar þá í samtali við Viðskiptablaðið og vísaði til þess að með kaupum Bygma væri eignarhaldið á Húsasmiðjunni orðið ljóst. Þá sagði Halldór Óskar að Bauhaus og Bygma hafi lengi háð samkeppni í Danmörku.