Bauhaus slhf., rekstrarfélag Bauhaus á Íslandi, tapaði 610 milljónum króna á síðasta ári. Það er svipað tap og árið á undan. EBITDA félagsins var neikvæð um 445 milljónir í fyrra. Félagið skuldaði móðurfélagi sínu, Bauhaus Danmark, og félaginu Interbauhaus Finanz samtals 3,4 milljarða króna í lok síðasta árs, en vörubirgðir drógust hins vegar saman og námu 1,3 milljörðum króna í lok ársins.

Uppsafnað tap félagsins frá stofnun nam um síðustu áramót 1,8 milljörðum. Fasteignafélagið Lambhagavegur, sem leigir Bauhaus húsnæði sitt og er í eigu sömu aðila, hagnaðist hins vegar um 206 milljónir króna á síðasta ári. Samanlögð afkoma þessara félaga var því neikvæð um 404 milljónir.