Byr skuldaði erlendum fjármálafyrirtækjum tæplega 40 milljarða króna. Um 2/3 hluti þeirrar upphæðar verður afskrifuð og restinni breytt í hlutafé. Tveir bankar munu eignast þorra þess.

Stefnt er að því að Byr hf. verði alfarið kominn í hendur kröfuhafa fyrirrennara síns, Byrs sparisjóðs, á næsta ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Samkomulag þess efnis var undirritað fyrir helgi. Þýski bankinn Bayerische Landesbank (BayernLB) og austurríski bankinn Raiffeisen Zentralbank Österreich (RZB) munu eignast samtals um helming hlutafjár Byrs hf. ef fram fer sem horfir.

Kröfuhafafundur verður haldinn 17. nóvember næstkomandi. Áður en að honum kemur verður búið að taka afstöðu til krafna og í kjölfarið ætti að verða nokkuð ljóst hverjir allir framtíðareigendur bankans verða. Þó er viðbúið að einhverjar deilur um kröfur muni lenda fyrir dómstólum og þurfi að útkljást þar. Sem dæmi þá lýstu stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs kröfum í búið á grundvelli stofnfjáreignar sinnar á þeirri forsendu að stofnfé væri skuldabréf.

Nánar er fjallað um málið nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .