*

miðvikudagur, 5. ágúst 2020
Innlent 21. ágúst 2019 09:12

BBA og Fjeldsted & Blöndal sameinast

Lögmannsstofunar BBA og Fjeldsted & Blöndal munu í haust sameinast undir nafninu BBA // Fjeldco.

Ritstjórn
Baldvin Björn Haraldsson, einn stofnenda BBA, segir sameininguna fela í sér mikil tækifæri.
Aðsend mynd

Lögmannsstofunar BBA og Fjeldsted & Blöndal munu í haust sameinast og mun hin nýja lögmannsstofa bera heitið BBA // Fjeldco og vera með aðalskrifstofur í turninum á Höfðatorgi. Þá mun BBA // Fjeldco reka skrifstofu í London og starfsemi í Frakklandi. Hjá stofunni munu starfa yfir 25 lögfræðingar og eru lögmenn stofunnar með lögmannsréttindi á Íslandi, Englandi, Frakklandi og New York. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að sameiningin sé stefnumarkandi þar sem með henni sameini krafta sína lögmannsstofur sem hafi verið í fremstu röð á sviði fyrirtækjalögfræði undanfarin ár og þannig tekið þátt í flestum af stærri verkefnum síðari ára, þ.m.t. fjármögnunum, innviðafjárfestingum, kaupum og sölum á stórum fyrirtækjum á fjármálamarkaði, fjarskiptamarkaði, fasteignamarkaði, ferðaþjónustu, orkumarkaði, alþjóðleg viðskipti, o.s.frv. Megintilgangur sameiningarinnar sé að sameina umfangsmikla reynslu og sérþekkingu þessara félaga á öllum sviðum fyrirtækjalögfræði og auka þannig enn frekar hæfni og getu sameinaðs félags. Stefnan sé að stofan verði fyrsti valkostur í  síbreytilegum og krefjandi verkefnum íslensks atvinnulífs.

„Rekstur og umsvif Fjeldco hafa vaxið hratt undanfarin ár og er það ekki síst vegna áherslu félagsins á að veita þjónustu með gæði og skilvirkni að leiðarljósi. Þá hefur BBA verið leiðandi í fyrirtækjalögfræði um árabil og er það mikið tilhlökkunarefni að sameina sérþekkingu og reynslu þessara félaga og búa til ráðandi lögmannsstofu á fyrirtækjamarkaði með framangreind gildi að leiðarljósi," segir Halldór Karl Halldórsson í tilkynningunni, en hann verður faglegur framkvæmdastjóri sameinaðrar stofu.

Þá segir Baldvin Björn Haraldsson, einn stofnenda BBA, í tilkynningunni að sameiningin feli í sér mikil tækifæri.

„Sameining BBA og Fjeldco markar tímamót og með henni skapast enn öflugri eining sem er sérstaklega vel í stakk búin til að styðja við síbreytilegar kröfur íslensks viðskiptalífs og vöxt íslenskra fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis, Eigendur sameinaðrar stofu hafa sameiginlega sýn á veitingu nútímalegrar lögmannsþjónustu með þarfir viðskiptavina í fyrirrúmi."

Stikkorð: samruni Fjeldsted & Blöndal BBA