Viðskiptablaðið kannaði rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins. Í flestum tilfellum virðist afkoma lögmannsstofanna
hafa batnað verulega eftir bankahrun og því græða þær vel á yfirstandandi efnahagskreppu og margháttuðum afleiðingum hennar. Stærstu stofur landsins skiluðu allar hundruð milljóna króna hagnaði á árinu 2009.

Af þeim lögfræðistofum sem Viðskiptablaðið kannaði afkomuna hjá skilaði BBA/ Legal mestum hagnaði allra á árinu 2009. BBA/Legal hagnaðist um 302,6 milljónir króna á árinu 2009 eftir skatta. Ekki er tiltekið í ársreikningi stofunnar hversu miklum hluta hagnaðarins sé lagt til að greiða hluthöfum hennar út í arð á árinu 2010. Árið áður greiddu eigendurnir sér þó 120 milljónir króna út í arð vegna 136,6 milljóna króna hagnaðar. Á árinu 2008 greiddu þeir sér út 71,4 milljónir króna vegna hagnaður upp á sömu krónutölu. Stofan greiddi því út nánast allan rekstrarhagnað sinn sem arð á þeim árum.

Vinna fyrir kröfuhafa

Samkvæmt heimasíðu BBA/Legal starfar 21 lögmaður hjá félaginu. Þar af eru sex eigendur. Tveir þeirra, Baldvin Björn Haraldsson og Ásgeir Ragnarsson, áttu 26% hlut hvor í lok árs 2009. Aðrir eigendur áttu minna. Á meðal þeirra er Bjarki Diego, sem var framkvæmdastjóri útlána Kaupþings fyrir bankahrun. Stofan er með aðsetur í Reykjavík og London og samkvæmt heimasíðu hennar er megináhersla BBA/Legal á „að svara þörfum viðskiptalífsins og kröfum viðskiptavina okkar um skjóta og örugga þjónustu“. Á meðal viðskiptavina BBA/Legal eru stórir kröfuhafar gömlu íslensku bankanna.

Ítarlega úttekt á rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.