Bandaríska verslanakeðjan Bed Bath & Beyond (BBBY) hefur tryggt sér tæplega eins milljarðs dala fjármögnun, eða sem nemur 146 milljörðum króna, til að komast hjá greiðslustöðvun, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

BBBY tilkynnti í gærkvöldi um að félagið hygðist ráðast í almennt útboð með forgangshlutabréf með breytirétti annars vegar og áskriftarréttindi hins vegar. Félagið áætlar að selja forgangshlutabréf fyrir 225 milljónir dala og sækja um 800 milljónir dala með útgáfu áskriftarréttinda. Félagið varaði við því að takist ekki að ljúka fjármögnuninni myndi það sennilega þurfa að sækja um greiðslustöðvun.

Heimildir WSJ herma að félagið hafi þegar tryggt fulla áskrift í útboðinu. BBBY hyggst auk þess draga 100 milljónir dala á lánalínu frá Sixth Street Partners. BBBY mun nýta fjármögnunina til að greiða niður gjaldfallnar skuldir.

Smásölufyrirtækið stendur höllum fæti eftir mikið tap á síðustu misserum. Stjórn BBBY sagðist í byrjun janúar hafa verulegar efasemdir um rekstrarhæfi félagsins og að hún væri m.a. að skoða sölu á eignum og beiðni um greiðslustöðvun.

Tilkynningin var birt í kjölfar þess að bréf félagsins hækkuðu um 92% í gær og stóðu í 5,86 dölum á hlut við lokun markaða. Gengi félagsins hefur þó fallið um 36% í viðskiptum fyrir opnun markaða, eftir að tilkynnt var um fjármögnunina, og stendur nú í 3,99 dölum.