Íslenskt pöddusnakk er til umfjöllunar á fréttasíðu BBC í dag, en Búi Aðalsteinsson og Stefán Thoroddsen eru frumkvöðlarnir að baki hinni nýstárlegu hugmynd.

Fram kemur í fréttinni að skordýr séu samþykkt matvæli í þróunarlöndunum og að hinir íslensku frumkvöðlar hafi fengið þá flugu í hausinn að útbúa úr þeim orkustykki. Þá er tekið upp úr viðtali þeirra félaga við Nútímann .

Búi og Stefán, sem koma frá BSF Productions, kynntu nýtt próteinstykki undir nafninu Crowbar á sérstökum fjárfestadegi á vegum Startup Reykjavík í Arion banka sl. föstudag. Orkustykkið er unnið úr kribbum (e. cricket) og þykir náttúrulegt, næringarríkt og sjálfbært að því er fram kemur á vefsíðu Crowbar . Þá inniheldur það einnig mikið magn próteins, steinefna og Omega 3 og 6 fitusýra.

Framleiðsla orkustykkisins er ekki enn hafin en á heimasíðu þess er hægt að skrá sig á lista og vera meðal þeirra fyrstu til að smakka þegar það kemur á markað.