Microsoft mun á fimmtudag setja í gang nýjustu útgáfuna Windows stýrikerfinu, Windows 7 en nokkur umræða hefur verið um bæði hið nýja stýrikerfi og eins stöðu Microsoft yfir höfuð.

Þannig heldur Tim Weber, viðskiptaritstjóri netfrétta á BBC, því fram á vef BBC að framtíð Microsoft standi og falli með Windows 7.

Síðustu árin hafa margir viljað spá því að endalok Microsoft væru nær en nokkurn grunaði, þá helst vegna velgengni Apple. Þá er ljóst að Microsoft á mikið undir velgengni Windows stýrikerfisins, en eins og fram kemur í grein Weber nam heildarvelta Microsoft rúmlega 58 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári en rekstrarhagnaður samstæðunnar nam um 14,6 milljörðum dala. Weber segir að rekja megi um helming þess til sölu á Windows stýrikerfinu.

Weber segir að Microsoft hafi í raun verið versti óvinur Windows hingað til. Vegna harðneskju félagsins gagnvart keppinautum hafi félagið þurft að þola sektir og pólitískar árásir, bæði frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og eins stjórnvalda í Bandaríkjunum.

Þá hafi nýjasta stýrikerfið hingað til, Windows Vista, verið eitt mesta flopp Microsoft frá upphafi. Fyrir utan það hversu erfitt er að setja kerfið upp sé kerfið gagnslaust að flestu leyti og hafi skaðað trúverðugleika Microsoft svo um munar. Til rökstuðnings bendir Weber á að fleiri kjósi Windows XP stýrikerfið, sem nú sé orðið átta ára gamalt, umfram Vista.

Í grein Webers kemur fram að Windows 7 lofi þó góðu að mörgu leyti. Fyrir það fyrsta sé framleiðsla þess á tíma, en framleiðsla Vista fór á sínum tíma tveimur árum fram úr áætlun. Þá hafi reynsluútgáfa (demo) af Windows reynst vel en fyrst og fremst virðist Microsoft hafa lært af reynslunni og lagað það sem helst var að í Vista til að Windows 7 ennþá betri. Loks má geta þess að Windows 7 byggist að mestu leyti á Windows 95, sem hingað til hefur verið vinsælasta stýrikerfi Microsoft.

Fyrir áhugamenn um tölvur og tækni, þá ekki síst stýrikerfi, má sjá grein Weber í heild sinni á vef BBC .