Eins og kunnugt er samþykkti stjórnarmeirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda vegna Icesave málsins svokallaða fyrr í dag.

Breska ríkisútvarpið (BBC) fjallar um málið á vef sínum þar sem fram kemur að Alþingi hafi samþykkt að endurgreiða breskum og hollenskum stjórnvöldum um 3 milljarða Sterlingspunda, en ríkisstjórnin beggja þjóða hafa þegar greitt um 400 þúsund viðskiptavinum Icesave innistæður sínar til baka á næstu 15 árum.

Eins og fram kom í morgun voru 34 þingmenn stjórnarmeirihlutans sem greiddu atkvæði með frumvarpinu. 14 kusu á móti, 14 sátu hjá og 1 var fjarverandi.

Fram kemur í frétt BBC að íslenska ríkisstjórnin vonist til þess að með því að samþykkja frumvarpið verði auðveldara að fá fjárhagsaðstoð annarra ríkja. Þó kemur fram í fréttinni að frumvarpið hafi verið umdeilt á Alþingi og margir þingmenn spurt af hverju stjórnvöld ættu að greiða fyrir skuldir einkafyrirtækis.

Þá kemur einnig fram að mikil reiði ríki á Íslandi í garð Breta fyrir að hafa beitt ákvæðum hryðjuverkalaga í þeim tilgangi að frysta eignir íslenskra fyrirtækja. Sérstaklega beinist spjótin að Alistair Darling, fjármálaráðherra fyrir að hafa ráðist á eignir Kaupþing með því að frysta eignir Landsbankans.