Útsendingar BBC World Service hefjast að nýju á Íslandi í dag, miðvikudaginn 13. ágúst. Vodafone á Íslandi hefur gert samning við breska ríkisútvarpið um að hið fyrrnefnda sjái um dreifingu BBC World Service á höfuðborgarsvæðinu og um IPTV sjónvarpsdreifikerfi félagsins um land allt.

Í tilkynningu frá Vodafone segir að fréttastöðin sé send út á FM-tíðninni 103,5, sem þegar sé komin í loftið. Auk þess sé stöðin aðgengileg á rás 319 í IPTV sjónvarpsdreifikerfi Vodafone.

BBC World Service er landsmönnum vel kunn en umfjöllun fréttastöðvarinnar, um hin margvíslegu málefni og fréttir líðandi stundar, hefur verið aðgengileg hér á landi með hléum allt frá 1993.

Í tilkynningu er haft er eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Vodafone, að það sé ánægjulegt að geta hafið útsendingar BBC World Service að nýju, fréttatöðin eigi sér marga hlustendur hér á landi. Jafnframt segir hann að Vodafone og breska ríkisútvarpið séu einhuga um að tryggja útsendingar á stöðinni hér á landi til framtíðar.