Næstráðandi Englandsbanka, Charles Bean, segir hagkerfi heimsins eiga langt í land með að ná sér eftir verstu kreppu síðustu áratuga.

Bean, sem er aðstoðarmaður stjórnanda Englandsbanka, segir litla von um að hlutirnir komist í samt lag fyrr en eitthvað er liðið á næsta ár.

Á dögunum birtust hagvaxtartölur fyrir Bretland, en í fyrsta sinn í 16 ár var ekki hagvöxtur í Bretlandi á 2. fjórðungi, en hann var þá um 0%.

Verðbólga í Englandi var 4,4% í júlí og telur Bean að ástandið fyrir heimili landsins muni lagast þegar verðlag fer að síga niður aftur.

„Ef hrávöruverð helst stöðugt eða lækkar jafn vel enn meira ætti verðbólgan að hjaðna,“ sagði Bean. „Ástandið á lánamörkuðum ætti að lagast smám saman og þetta tvennt mun hjálpa okkur að tryggja að hagvöxtur taki við sér á næsta ári.“