Fjárfestingabankinn Bear Stearns var seint í gær seldur til JP Morgan Chase bankans fyrir 7% af markaðsverðmæti Bear Stearns við lok viðskipta á föstudag, en þá hafði verðið þegar lækkað um nær helming innan dagsins. Bear Stearns var seldur á 236 milljónir dala, markaðsverðið var 3,5 milljarðar dala í lok dags á föstudag og 20 milljarðar dala í janúar í fyrra, að því er segir í frétt WSJ.

Unnið var að sölu Bear Stearns um helgina eftir að í ljós kom seint á föstudag að bankinn væri lentur í alvarlegum vanda vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum. WSJ hefur eftir einum þeirra sem tóku þátt í viðræðum Bear Stearns og JP Morgan að kostirnir fyrir Bear Stearns hafi aðeins verið tveir; að taka því verði sem JP Morgan bauð eða fara á hausinn.

Seðlabankinn lánar og gengst í ábyrgðir

Seðlabanki Bandaríkjanna kom að lausn á vanda Bear Stearns sem hafði ekki getað selt eignir á borð við veðlán. Seðlabankinn lagði til 30 milljarða dala fjármögnun, sem talin er sú stærsta sem eitt fyrirtæki hefur fengið frá honum, og hefur gengist í ábyrgðir þannig að lækki eignirnar í verði ber Seðlabankinn tapið en ekki JP Morgan.

Seðlabankinn rýmkar reglur um lán til fjármálafyrirtækja

Í gærkvöldi rýmkaði Seðlabanki Bandaríkjanna einnig reglur sínar um skammtímalán til fjármálafyrirtækja (e. discount window) og lækkaði vexti á þeim um 25 punkta í 3,25%, auk þess að lengja hámarkstíma þeirra úr 30 dögum í 90 daga.

Eftir breytingarnar geta verðbréfafyrirtæki í fyrsta sinn tekið lán hjá Seðlabankanum með sama hætti og bankar og verður sú regla í gildi í að minnsta kosti sex mánuði. Í WSJ kemur fram að þetta sé ein mesta útvíkkun á útlánareglum Seðlabanka Bandaríkjanna frá fjórða áratug síðustu aldar. Ætlunin sé að vinna bug á þrengingum á fjármálamörkuðum vegna hættu á djúpri kreppu.