Lítið hefur heyrst af gjaldeyrissérfræðingnum Beat Siegenthaler. Hann var á árum áður sérfræðingur á nýmarkaðssviði kanadíska fjármálafyrirtækisins TD Securities í Lundúnum í Bretlandi. TD Securities var ábyrgt fyrir um 60% allra jöklabréfa sem gefin voru út fyrir hruni og brann fjöldi viðskiptavina fyrirtækisins inni með fjárfestingu sína þegar gjaldeyrishöftin voru innleidd í desember árið 2008.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Siegenthaler, sem er borinn og barnfæddur Svisslendingur, er nú gjaldeyrissérfræðingur hjá svissneska alþjóðabankanum UBS í heimalandi sínu. Bloomberg-fréttastofan ræðir við hann í dag um skuldakreppuna á evrusvæðinu og hugsanlega þróun evrunnar. Siegenthaler segir líklegt að viðbrögð evrópska seðlabankans gegn skuldakreppunni muni valda því að evran muni lækka frekar gagnvart helstu gjaldmiðlum á árinu.

Bjóst við heimskreppu

Siegenthaler skrifaði fjölda umsagna um efnahagslífið hér og krónuna fyrir hrun auk þess að funda með starfsmönnum Seðlabankans, Kaupþings og fleiri hér um ástand efnahagsmála. Morgunblaðið sagði svo frá Siegenthaler í viðtali við hann 4. október 2008 að vegna langvinnrar stöðu TD Securities í íslenskum krónum hafi verið sagt að Sigenthaler hafi verið með örlög krónunnar í hendi sér. Á þeim tíma riðaði íslenskt efnahagslíf til falls og féllu bankarnir í faðm ríkisins örfáum dögum síðar. Hann taldi ljóst að þörf væri á veigamiklum aðgerðum til að bjarga krónunni en bjóst við að evrans verði tekin upp hér. Þá sagðist Siegenthaler telja kreppu yfirvofandi á heimsvísu, Ísland verði þar ekki undanskilið. „Í sögulegu samhengi verður kreppan dýpri og erfiðari. Miðað við smæð landsins verður þetta mjög erfitt fyrir Ísland, en á endanum mun efnahagurinn rétta sig af,“ segir Siegenthaler í samtali við Morgunblaðið.


Herra Jöklabréf

Ásgeir Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, skrifaði nokkuð um Beat Siegenthaler í bók sinni Why Iceland auk þess sem Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Bretlandi, gerir hann að umtalsefni í pistli sem hann skrifaði á Eyjuna fyrir rúmum tveimur árum. Ármann sagði TD Securities upphafsaðila jöklabréfamarkaðsins.

Hann benti á að þegar vextir náðu himinháum hæðum hér hafi fyrirtækið leitað til erlendra banka og fengið þá til að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum sem seld voru erlendum fjárfestum - svokölluð jöklbréf. Alþjóðlegu bankarnir hafi ekki vilja skulda í krónum og því hafi TD Securities gert skiptasamninga við þá þar sem skuldinni var breytt úr krónum í evrur. TD Securities varði síðan stöðu sína með skipasamningi við íslensku bankana. Þegar halla tók undan fæti í íslensku efnahagslífi og íslensku bankarnir lentu í bobba sem olli því að þeir vildu ekki lengur gera skiptasamninga þá vöknuðu starfsmenn TD Securities upp við vondan draum og kalla Beat Siegenthaler til.

Ásgeir segir í bók sinni Siegenthaler, sem var talsmaður hávaxtastefnunnar, hafa verið uppnefndan „Up-Beat“ vegna þess hve jákvæður hann var gagnvart íslensku krónunni þegar byrjað var að gefa út jöklabréfin. Þegar hins vegar tók að halla undan fæti mun Siegenthaler hafa lagt til að Seðlabankinn gæti út innstæðubréf sem TD Securities og fleiri gætu keypt í stað þess að geyma eignir sínar hjá viðskiptabönkunum. Þetta olli því að lausafé sogaðist úr viðskiptabönkunum og inn í Seðlabankann. Viðskiptabankarnir gripu þá til þess ráðs að gefa út svokölluð ástarbréf til að afla sér lausafjár í staðinn. Það setti svo Seðlabankann á hausinn.