Franz Beckenbauer hefur verið veitt viðvörun og sektaður um 900 þúsund krónur af siðanefnd FIFA fyrir að hafa ekki aðstoðað við rannsókn á spillingu. Siðanefndin hefur undanfarið rannsakað kosningar um staðsetningu á heimsmeistaramótunum í fótbolta fyrir árin 2018 og 2022, en þær verða haldnar í Rússlandi og Katar.

Beckenbauer var einn þeirra 22 aðila sem ákváðu hvar mótin skyldu haldin. Siðanefndin segir að hann hafi ekki veitt samstarfsvilja í yfirheyrslu og svaraði ekki skriflegum fyrirspurnum.

Beckenbauer var yfirmaður skipulagsnefndar sem sá um skipulagningu á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Þýskalandi árið 2006, en orðrómur hefur verið uppi um mútur í kringum val á Þýskalandi. Hann hefur þó alfarið neitað þeim ásökunum.

Stórt spillingarmál hefur umlukið FIFA undanfarið. Nýlega var framkvæmdastjórinn rekinn og Sepp Blatter, forseti FIFA, alþjóðasambandsins og Michel Platini forseti UEFA, Evrópusambandsins voru einnig nýlega settir í átta ára bann frá öllu sem tengist fótbolta.