*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 19. desember 2007 10:56

Becromal semur við Íslensk almannatengsl

Ritstjórn

Becromal hefur samið við Íslensk almannatengsl um miðlun upplýsinga frá fyrirtækinu til fjölmiðla og um ráðgjöf í mannauðsstjórnun. Meginmarkið samkomulagsins er að kynna fyrir fjölmiðlum og almenningi starfsemi Becromal á Íslandi.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að Becromal vinni að byggingu aflþynnuverksmiðju á Krossanesi við Eyjafjörð, í samstarfi við Strokk Energy ehf. Becromal er leiðandi í framleiðslu aflþynna og mun leggja allt kapp á að uppbygging verksmiðjunnar gangi hratt og vel fyrir sig.

Hlutverk Íslenskra almannatengsla verður fyrst og fremst að vera ráðgefandi í málefnum er varða mannauðsstjórnun og að tryggja gott upplýsingaflæði á milli Becromal og fjölmiðla. Þá munu Íslensk almannatengsl einnig vinna auglýsingar og koma upp heimasíðu fyrir Becromal, þegar styttist í að verksmiðja fyrirtækisins norðan heiða hefji starfsemi.

Á Akureyri hyggst Becromal framleiða fimmtu kynslóð aflþynna, sem æ fleiri fyrirtæki þurfa fyrir sína framleiðslu. Þessi nýja framleiðsla aflþynna dregur úr orkuþörf rafmagnstækja, eins og m.a. er kveðið á um í Kyoto samningnum. Þá mun fimmta kynslóð aflþynna auka skilvirkni orkugjafa á borð við sólarrafhlaðna og vindmylla.

Íslensk almannatengsl er ráðgjafafyrirtæki á sviði markaðs- og upplýsingamála, með samstarfsaðila frá Weber Shandwick í sex heimsálfum og 82 löndum. Átta einstaklingar starfa hjá Íslenskum almannatengslum, bæði ráðgjafar, grafískir hönnuðir og tæknimenn. Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Ómar R. Valdimarsson. Skrifstofur fyrirtækisins eru að Skipholti 25 í Reykjavík.