Katrín Júlíusdóttir rifjar upp ástandið sem var í þjóðfélaginu skömmu eftir hrun.

„Við tókum við 216 milljarða gati á fjárlögum og það er deginum ljósara að enginn ræðst í það verkefni í þeirri sjálfsblekkingu að hægt sé að gera allt sem viljinn stendur til. Við vorum í björgunarstörfum og staðan var þannig að við þurftum að keppast við að fjármagna launagreiðslur til opinberra starfsmanna og halda opinberri starfsemi gangandi. Þetta voru þannig aðstæður.

Sama má segja um þá umræðu sem skapaðist eftir á um t.d. Icesave-málið. Margir reyndu að mála upp þá mynd að það hefði verið eitthvert hugsjónarmál hjá okkur að semja um Icesave. En staðreyndin var einfaldlega sú á að þessum tíma voru lánalínur til Íslands meira eða minna lokaðar og það skipti máli að sýna samningsvilja til að þær myndu opnast. Ef lánalínurnar hefðu haldist lokaðar hefði það einfaldlega þýtt að okkur hefði verið allar bjargir bannaðar.

Ég tók þessu hnjóði hins vegar aldrei persónulega og það var ekki oft sem ég lenti í aðkasti út á götu, hvað þá heima hjá mér eins og því miður margt samstarfsfólk mitt lenti í. Það var hins vegar vissulega svolítið merkilegt að vera staddur í einhverri seremóníu á borð við þingsetningu, vitandi að þegar maður labbaði út úr Alþingishúsinu yrði maður grýttur með einhverju. Með hverju vissi maður ekki og vonaði bara það besta. Síðan fór maður heim eftir daginn, búin að hreinsa af sér eggin, skrapp í Bónus og kíkti næstu helgi í Kolaportið eða horfði á krakkana spila fótbolta, og þá var enginn að grýta mann, enginn að hreyta í mann ónotum. Ég áttaði mig því á að þetta snerist um stofnunina sem ég starfaði hjá en ekki mig persónulega.“

Samfara þessum mikla hamagangi í samfélaginu voru margvísleg innbyrðis átök innan Samfylkingarinnar. Árni Páll Árnason, þáverandi formaður, var oft á tíðum mjög umdeildur og reið sjaldnast feitum hesti frá könnunum um traust almennings á ráðherrum eða vinsældir þeirra. Það var ítrekað talað um að þú ættir að taka við formannstaumunum og rífa upp fylgi Samfylkingarinnar. Þú hlýtur að hafa fundið fyrir þeim þrýstingi og velt því fyrir þér að bjóða þig fram gegn formanninum?

„Ég er mjög meðvituð um að lífið sé bara ein umferð og kýs að vera þar sem ég tekst á við nýjar áskoranir, er hamingjusöm, læri eitthvað nýtt og eflist. Mér fannst ég ekki lengur vera í þeim sporum undir lokin í stjórnmálunum og þar með hefði ég heldur ekki getað skilað mínu besta,“ segir Katrín.

„Ég vil ræða framtíðina og horfa langt fram í tímann, og á þessum tíma var ástandið þannig að ekki var hægt að fara t.d. í viðtal með kollegum mínum án þess að umræðan færi að snúast um hvað við höfðum sagt eða gert árið 2009. Umræðan hjakkaði í því fari án þess að skila nokkru gagni. Fyrir utan að mér drepleiddist þessi umræða þá var þráhyggjan um fortíðina orðin dragbítur á framþróun og um leið var ég orðinn dragbítur á umræðuna innan raða sósíaldemókrata á Íslandi, í raun og veru orðin hluti af fortíðarvandanum.

Allir þessir hlutir röðuðust saman og þó að ég teldi mig hafa bæði hugmyndir, getu og vilja til að leggja mitt af mörkum, þá var niðurstaðan samt sú að tímabært væri að færa sig í nýtt umhverfi. Ég gerði nokkurs konar praktíska greiningu á stöðunni til að meta hvort hún passaði við það sem hjartað sagði mér og þegar ákvörðun mín lá fyrir vildi ég ekki bíða með að tilkynna hana opinberlega, vegna þessa þrýstings sem var á mig um formannskjör.

Ég vildi gefa fólki rými og tíma til að geta velt fyrir sér hvað það vildi gera með því að taka sjálfa mig strax úr myndinni. Það hefði verið óheiðarlegt af mér að halda mér í umræðunni, vitandi sjálf að ég ætlaði að hætta. Hvorki í stjórnmálum né í öðrum störfum geturðu tekið ákvarðanir, sem hafa áhrif á þig og þína persónu eða framtíð fjölskyldu þinnar, byggðar á einhvers konar augnabliks hégómakitli. Ég tek mínar ákvarðanir býsna vel ígrundaðar, hlusta á hjartað og hausinn, og ég vissi að ef ég byði mig fram til áframhaldandi starfa og til formennsku og ef ég yrði kosin, væri ég ekki að gera það á réttum forsendum og yrði þar af leiðandi ekki rétta manneskjan í starfið. Ég var til í slaginn árið 2012 og bauð mig þá fram gegn Árna Páli í oddvitasætið, en þegar kosið var um formann 2016 var staðan orðin önnur,“ segir Katrín Júlíusdóttir.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .