Eignastýringarrisinn Wellington Management rennir hýru augu til Íslands og telur að mörg tækifæri séu í boði fyrir erlenda fjárfesta hér á landi. Wellington er eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki heims með 100 þúsund milljarða króna í stýringu. Sjóðir á vegum fyrirtækisins hafa nýlega bæst í hóp 20 stærstu hluthafa í N1, Nýherja og Símanum, en ítarlega er fjallað um eignarhald erlendra aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði á blaðsíðum 20-21 í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Í byrjun mánaðar gaf Wellington út skýrslu á vefsíðu sinni sem nefnist í lauslegri þýðingu „Toppurinn á ísjakanum? Tækifæri Íslands eru að koma upp á yfirborðið“ . Í skýrslunni færa greinarhöfundarnir Brian Garvey og Adam Fraser rök fyrir ágæti Íslands sem fjárfestingarkosts. Vísa þeir til öflugs hagvaxtar, batnandi skuldastöðu hins opinbera og trúverðugrar stefnu stjórnvalda.

Einkavæðing á næsta leiti

Í skýrslunni kemur fram að tækifærin séu vissulega af skornum skammti á íslenskum hlutabréfamarkaði, enda eru færri en 20 skráð félög og markaðsvirði þeirra flestra undir milljarði Bandaríkjadala. Sjálfir segjast þeir vera hrifnir af fyrirtækjum sem njóta góðs af ferðamannastrauminum til landsins.

„Bensínstöðvar og þjónustumiðstöðvar með nýjungargjörn viðskiptalíkön eru meðal okkar helstu valkosta,“ segja höfundarnir og vísa þar væntanlega til rúmlega 5% eignarhlutar Wellington í N1. Þeir segjast einnig vera hrifnir af fasteignafélögunum og má gera ráð fyrir að þeir séu í hluthafahópi einhverra þeirra þó svo að þeir séu ekki meðal 20 stærstu hluthafa. Að lokum segjast þeir sjá tækifæri hjá völdum fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækjum, en Wellington bættist einmitt nýlega í hóp stærstu hluthafa í Símanum og Nýherja.

Skýrsluhöfundar segja að meðal áhættusamari fjárfestingarkosta séu félög í flug- og fraktiðnaði sem gætu orðið fyrir aukinni pressu frá alþjóðlegri samkeppni á komandi árum. Hins vegar eigi enn eftir að einkavæða bankakerfið á Íslandi og þar gæti verið áhugavert tækifæri fyrir alþjóðlega fjárfesta. Þeir búast við því að bankarnir verði settir á markað síðar á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .