*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 9. febrúar 2019 16:53

Beðið eftir erlendu fjármagni

Afskráning Heimavalla eftir minna en ár á markaði og tilboð í bréf félagsins ekki til að ná meirihluta heldur losa minni fjárfesta.

Höskuldur Marselíusarson
Guðbrandur Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Heimavalla, hringdi inn fyrstu viðskipti félagsins í Kauphöllinni fyrir rétt rúmlega átta mánuðum, en nú stefnir í að félagið verði afskráð að nýju, ef tillaga þess efnis nær fram að ganga.
Haraldur Guðjónsson

Tillaga um afskráningu leigufélagsins Heimavalla af markaði verður afgreidd á aðalfundi félagsins um miðjan mars, að því er fram hefur komið í tilkynningu frá stjórn félagsins. Forsvarsmenn segja tilboð í bréf félagsins ekki sett fram til að ná yfirtökum í félaginu. Fjármagnskostnaður vegur þungt en gæti lækkað við afnám gjaldeyrishafta líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður.

Eftir rétt rúmlega átta mánuði á markaði stefnir nú í að leigufélagið Heimavellir verði afskráð, ef áform hluthafa sem eiga um fimmtungshlut í félaginu gengur eftir. Á föstudag, 1. febrúar síðastliðinn, barst stjórn Heimavalla erindi þriggja hluthafa um að boðað yrði til hluthafafundar þar sem lægi fyrir tillaga um að hlutabréf félagsins yrðu tekin úr viðskiptum í kauphöll Nasdaq á Íslandi, eða að slík tillaga yrði sett á dagskrá aðalfundar. Jafnframt hyggjast eigendur bréfanna gera tilboð í um 17% bréfa í félaginu á 2,5 milljarða króna, í gegnum félag sitt Siglu ásamt fjárfestingarsjóðnum Alfa Framtaki ehf. 

Er það mat hluthafanna að það hafi ekki skilað væntum ávinningi fyrir hluthafa og félagið að skrá það á markað. Töluverð umræða hefur verið um það að virði eigna félagsins væri meira en markaðsvirði félagsins í kauphöllinni, og að það jafnvel borgi sig að leysa félagið upp og selja allar eignir þess, sem felast í um 1.900 íbúðum víðs vegar um landið. Bókfært virði þeirra nam 30. september síðastliðinn 55,7 milljörðum króna.

Því til viðbótar var félagið þá með eignir í byggingu fyrir um 1 milljarð. Í hlutabréfaútboði félagsins í maí síðastliðnum, í aðdraganda þess að viðskipti hófust í kauphöllinni með bréfin, þann 24. maí, seldust 750 milljónir hluta í félaginu, á 1.034 milljónir króna. Í heildina eru útistandandi um 11,4 milljarðar bréfa í félaginu, sem miðað við fyrirliggjandi tilboðsgengi áðurnefndra félaga yrði þá að andvirði rétt tæplega 14,9 milljarðar króna. 

Lítill áhugi á félaginu 

Kom það í raun fram strax á fyrsta viðskiptadegi í kauphöllinni að áhugi markaðsaðila væri minni en forsvarsmenn félagsins höfðu vænst, en þá lækkuðu bréf þess frá útboðsgenginu 1,39 í 1,24 og hefur gengi bréfanna haldist meira og minna við og undir því síðan. Síðan tilkynnt var um áætlun hluthafanna á föstudag hefur gengið hækkað um 7,4%, ef miðað er við lokagengið á fimmtudag sem var 1,145 upp í 1,23 sem var lokagengið við lokun markaða á miðvikudag. Það er samt sem áður lægra en áðurnefnt tilboðsgengi, og munar um 800 milljónum á heildarmarkaðsvirði félaganna þar á milli. 

Má m.a. merkja áhugaleysið af því að einungis einn af fimm stærstu lífeyrissjóðum landsins, Birta lífeyrissjóður, er meðal 20 stærstu hluthafa félagsins, með 5,6% en þar með er hann fimmti stærsti hluthafinn. Það gæti verið vegna þess að umræðan um leigufélögin hafi verið viðkvæm, en spurning er hvort það sé að breytast þar sem lífeyrissjóðirnir eru meðal þeirra sem taka þátt í yfirtökutilboðinu í gegnum Alfa Framtak ehf. 

Stærsti eigandi Heimavalla er Stálskip ehf., með 8,6%, en síðan koma félögin Snæból ehf. og Gani ehf., með um 7,54% hver, en það eru þessi tvö félög, ásamt Klasa ehf., sem á 3,9%, sem sendu erindið um afskráningu félagsins til stjórnar félagsins. Hjónin Finnur Reyr Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir eiga Snæból, Gani er í eigu Tómasar Kristjánssonar og saman leiða þessir aðilar fjárfestarfélagið Klasa, og eiga félög þeirra svo aftur Siglu ehf. Samanlagt eiga 20 stærstu hluthafarnir þrjá fjórðu allra bréfa félagsins. 

Stefán Þór Bjarnason hjá Arctica Finance sem er umsjónaraðili tilboðsins sem Sigla og Alfa Framtak fjármagna, telur líklegt, eins og á daginn kom, að ekki þurfi að halda sérstakan hluthafafund þar sem aðalfundur félagsins verður 14. mars næstkomandi.  Í tilkynningu til kauphallarinnar vegna tilboðsins er tekið fram að því sé ætlað að greiða fyrir töku bréfa Heimavalla úr viðskiptum kauphallarinnar með því að veita þeim hluthöfum sem ekki hugnast að eiga í óskráðu félagi tækifæri til að selja. Enda sé ljóst að seljanleiki bréfanna, sérstaklega minni hluta, muni minnka við það, auk þess sem upplýsingagjöf verður takmarkaðri.

„Þetta er ekki yfirtökutilboð sem sett er fram til að reyna að ná yfirtökum í félaginu,“ segir Stefán Þór. Hann segir að formlegt tilboð komi fram eftir að uppgjör félagsins verði lagt fram 14. febrúar næstkomandi og muni gilda fram yfir hluthafafundinn eða aðalfundinn, hvor leiðin sem farin verður.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggur fyrir að hluthafar Heimavalla vilja halda áfram að straumlínulaga eignir félagsins og jafnvel endurskoða áform um nýbyggingar. Hins vegar liggi ekkert fyrir um hvort félagið verði leyst upp líkt og einnig hafa verið uppi hugmyndir um, en ljóst sé að töluverð tækifæri felist í að ná betri nýtingu á eignasafni þess, sérstaklega með lægri fjármögnunarkostnaði. Félagið hefur m.a. gert samkomulag um uppbyggingu 100 íbúða á Veðurstofureitnum í Reykjavík. 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.