Á vettvangi EES-samstarfsins er beðið samþykkis frá Íslandi svo afnema megi einkarétt á póstdreifingu. Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.

Í skýrslunni segir að tilskipun Evrópusambandsins um póstþónustu sé lokahnykkurinn í að afnema einkarétt póstdreifingar á bréfum sem vega 50 grömm eða minna. Tilskipunin hefur ekki verið felld inn í EES-samninginn og var ástæðan andastaða norskra stjórnvalda við upptöku tilskipunarinnar.

„Afstaða nýrrar ríkisstjórnar í Noregi til málsins er aftur á móti breytt og hafa norsk stjórnvöld gefið grænt ljós á upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn og er á vettvangi EES-samstarfsins beðið samþykkis frá Íslandi svo taka megi gerðina upp í EES-samninginn,“ segir í skýrslu ráðherra. „Tilskipunin kallar á lagabreytingar hér á landi og er af þeim sökum til meðferðar hjá utanríkismálanefnd Alþingis.“

Birgir Ármannsson, formaður utnaríkismálanefndar, segir að málið hafi borist þinginu.„Þar á það eftir að fá umfjöllun í utanríkisnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd," segir Birgir. „Sú umfjöllun hefur ekki hafist enn en málið verður auðvitað tekið fyrir vor. Síðan í framhaldi af því má vænta frumvarps ef ákveðið verður að fallast á þetta. Það er ólíklegt að það yrði fyrr en í haust.“

Spurður hvort tímaspursmál sé hvenær einkarétturinn verði afnuminn svarar Birgir: „Ég myndi halda það en það er óvarlegt að tjá sig um þetta fyrr en málið hefur fengið afgreiðslu í viðeigandi nefndum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .