Farið hefur verið fram á að atkvæði verði talin aftur í Suðurkjördæmi. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Aðeins munar átta atkvæðum á síðasta kjördæmakjörna þingmanninum, Miðflokksmanninum Birgir Þórarinssyni, og fyrsta manni Vinstri grænna.

Stikkprufur voru teknar í Suðurkjördæmi í morgun þannig að tíu prósent atkvæða voru talin aftur. Þær prufur stóðust og var því ekki haldið áfram. Beiðni um endurtalningu hefur hins vegar komið fram núna. Atkvæði voru endurtalin í Norðvesturkjördæmi í dag og þýddi það að þingmannafjöldi breyttist ekki en fimm einstaklingar duttu út og aðrir fimm komu í þeirra stað. Karlkyns þingmenn eru nú 33 en kvenkyns 30.

Endurtalningin í Norðvestur sýndi allt að tíu atkvæða sveiflu á einstökum flokkum. Komi slík sveifla fram hjá Vinstri grænum og Miðflokki í Suðurkjördæmi sendir það allt fylgið á flakk á nýjan leik. Vinstri græn fengju kjördæmakjörinn mann í Suðurkjördæmi en Birgir Þórarinsson yrði jöfnunarmaður.

Það myndi síðan senda sveifluna frá því áðan aftur til baka að öllu leyti, það er þingmennirnir yrðu þeir sömu. Eini munurinn væri sá að Hólmfríður Árnadóttir yrði 9. þingmaður Suðurkjördæmis og Birgir Þórarinsson Miðflokki sá tíundi. Allt annað yrði hið sama og við lokatölurnar í byrjun dags.