Steve Dickson, forstjóri bandarísku flugmálayfirvaldanna FAA, fór fram á að Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, hætti að gefa út yfirlýsingar um hvenær Boeing 737 Max flugvélarnar muni snúa aftur í loftið, á fundi með honum í höfuðstöðvum FAA í Washington.

Samkvæmt heimildum Seattle Times er ekki búist við því að Max vélarnar taki á loft fyrr en eftir miðjan febrúar. Þar með mun kyrrsetning flugvélanna hafa staðið yfir í að verða ár en þær voru kyrrsettar þann 13. mars á þessu ári. Prófanir á Max vélunum gengu illa í síðustu viku. Þá fékk Boeing flugmenn frá nokkrum flugfélögum til að prófa ýmsar neyðaraðstæður sem vélarnar geta lent í. Óvissa varð er snýr að gátlistum flugmanna í prófunum.

Heimildarmenn blaðsins segja mögulegt að Boeing muni hætta framleiðslu vélanna um tíma á meðan niðurstaða um hvenær þær snúi aftur í háloftin liggi ekki fyrir. Muilenburg sagði í júlí að hann væri bjartsýnn um að vélarnar yrðu teknar aftur í notkun í október.

American Airlines gaf út á fimmtudaginn að flugfélagið geri ekki ráð fyrir Max flugvélunum fyrr en í apríl. Icelandair hefur sagt að þeir geri ekki ráð fyrir flugvélunum fyrr en í mars.