*

föstudagur, 10. júlí 2020
Erlent 13. desember 2019 16:10

Beðinn um að segja sem minnst um Max

FAA biður forstjóra Boeing um að hætta að tjá sig um hvenær 737 Max snúi aftur. Ekki er búist við vélunum fyrr en um miðjan febrúar hið fyrsta.

Ritstjórn
Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing.

Steve Dickson, forstjóri bandarísku flugmálayfirvaldanna FAA, fór fram á að Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, hætti að gefa út yfirlýsingar um hvenær Boeing 737 Max flugvélarnar muni snúa aftur í loftið, á fundi með honum í höfuðstöðvum FAA í Washington.

Samkvæmt heimildum Seattle Times er ekki búist við því að Max vélarnar taki á loft fyrr en eftir miðjan febrúar. Þar með mun kyrrsetning flugvélanna hafa staðið yfir í að verða ár en þær voru kyrrsettar þann 13. mars á þessu ári. Prófanir á Max vélunum gengu illa í síðustu viku. Þá fékk Boeing flugmenn frá nokkrum flugfélögum til að prófa ýmsar neyðaraðstæður sem vélarnar geta lent í. Óvissa varð er snýr að gátlistum flugmanna í prófunum.

Heimildarmenn blaðsins segja mögulegt að Boeing muni hætta framleiðslu vélanna um tíma á meðan niðurstaða um hvenær þær snúi aftur í háloftin liggi ekki fyrir. Muilenburg sagði í júlí að hann væri bjartsýnn um að vélarnar yrðu teknar aftur í notkun í október.

American Airlines gaf út á fimmtudaginn að flugfélagið geri ekki ráð fyrir Max flugvélunum fyrr en í apríl. Icelandair hefur sagt að þeir geri ekki ráð fyrir flugvélunum fyrr en í mars.

Stikkorð: Boeing 737 Max FAA