„Við bíðum átekta eftir niðurstöðunni," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og vísar til þess hvort stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni fjalla um endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og Íslands á fundi sínum 3. ágúst.

Í ljósi þess að Alþingi hefur ekki afgreitt frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina kemur til greina af hálfu AGS að fresta endurskoðuninni. Þar með tefst önnur lánagreiðsla sjóðsins til Íslendinga.

Hollendingar og Bretar hafa sterka stöðu innan AGS og hafa þeir hingað til ekki hikað við að beita sér bakvið tjöldin til að þrýsta á niðurstöðu í Icesave-málinu.

Steingrímur segir í samtali við Viðskiptablaðið að íslensk stjórnvöld hafi staðið við allt sitt til að endurskoðunin gæti farið fram. Þau séu búin að samþykkja aðgerðir í ríkisfjármálum og samningar um endurreisn bankanna liggi fyrir.

Eina hindrunin sé Icesave-málið. „Stjórnvöld hafa þó gert það sem upp á þau stendur þ.e.a.s. að gera samninginn [um Icesave] og leggja hann fyrir Alþingi."

Endurreisnin gæti tafist

Fjárlaganefnd Alþingis hefur sem kunnugt er gefið sér rúman tíma til að fjalla um málið og verður það í fyrsta lagi afgreitt úr nefnd í næstu viku til annarrar umræðu á þingi. Steingrímur segist hafa bundið vonir við, fram að þessu, að það myndi ekki tefja endurskoðunina þótt Alþingi væri ekki búið að afgreiða málið.

Þegar Steingrímur er spurður hvaða afleiðingar það gæti haft, frestist umrædd endurskoðun AGS, segir hann að það sé ekki vikuspursmál hvenær gjaldeyrislánin verði veitt Íslendingum. Heildarendurreisnaráætlunin gæti hins vegar tafist. Til dæmis gæti þetta haft áhrif á endurreisn bankakerfisins, matsfyrirtækin og mat Seðlabankans á stýrivexti.

Vinna á grundvelli áætlunar AGS

Eins og fram kom í sameiginlegri tilkynningu Norðurlandanna fyrr í sumar þegar lánasamningar til Íslendinga voru undirritaðir í Stokkhólmi eru greiðslur Norðurlandalánanna háðar endurskoðun AGS. Fyrsta lánagreiðsla Norðurlandanna yrði til dæmis ekki innt af hendi fyrr en AGS hefði afgreitt annan hluta síns láns.

Þetta þýðir með öðrum orðum að Norðurlandalánin eru háð afgreiðslu Icesave enda sagði í fyrrgreindri tilkynningu að „samningar Íslendinga við Breta og Hollendinga um uppgjör skuldbindinga Íslands vegna Icesave-málsins [væri] mikilvægur áfangi."

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um  málið í byrjun júlí var þessi afstaða staðfest af Anne Björnermark, fultlrúa sænskra stjórnvalda, í lánaviðræðunum.

Hún minnti þar sömuleiðis á að lánaviðræður Norðurlandanna fjögurra og Íslendinga hefðu farið fram á grundvelli efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda.