„Enn er verið er að vinna að því að taka erlent »» lán til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans,“ sagði Geir H. Haarde eftir ríkisstjórnarfund í gær. Geir vildi, sem fyrr, lítið segja um hvenær lánið yrði tekið. Verið sé að vinna að því og hann sagðist treysta þeim sem það gerðu fullkomlega. Hann væri þessum málum vel kunnur.

„Tekin verður ákvörðun um lántökuna þegar rétti tíminn kemur, en málið er skoðað daglega á vettvangi Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins,“ segir Geir. Margt komi til skoðunar við slíka lántöku, meta þurfi m.a. upphæðir, kjör, lánstíma og gjaldmiðil.

„Skuldatryggingarálagið hefur hækkað undanfarið, hér eins og annars staðar í heiminum, sem bendir til þess að lánskjör fari versnandi,” sagði Geir. Hann telur þó skuldatryggingarálagið vera meingallaða viðmiðun í þessum efnum. Í vor töluðu talsmenn ríkisstjórnarinnar hins vegar um það að lánskjör færu batnandi.