Nordic Partners vonast eftir að tékknesk samkeppnisyfirvöld veiti félaginu heimild á næstu dögum, í seinasta lagi fyrir páska, til að kaupa Hame, stærsta framleiðanda niðursoðinnar matvöru í Tékklandi. Gísli Reynisson, forstjóri og aðaleigandi Nordic Partners, segir að því stefnt að félagið taki við rekstri Hame ekki síðar en 15. apríl nk.

Hame hefur um 3000 starfsmenn í sinni þjónustu og er reiknað með að velta þess í fyrra hafi numið 4,9 milljörðum tékkneskra krona, eða sem nemur um 19,5 milljörðum íslenskra. Fyrirtækið á dótturfyrirtæki í Rúmaníu, Ungverjalandi, Rússlandi, Póllandi, Úkraníu og Slóvakíu. Nordic keypti fyrirtækið í byrjun janúar en kaupin þó skilyrt samþykki samkeppnisyfirvalda ytra og að tiltekinn afkomumarkmið næðust í fyrra.

„Ég á ekki von á öðru en að kaupin verði samþykkt og það lítur út fyrir að afkoma fyrirtækisins 2007 verði mun betri en við settum sem lágmarksskilyrði,” segir Gísli í samtali við Viðskiptablaðið.

Kveðst hann gera ráð fyrir að fengnu samþykki samkeppniseftirlitsins muni Nordic Partners taka við rekstrinum í seinasta lagi um miðjan apríl en félagið hafi nú þegar menn í stjórn félagsins sem hafa neitunarvald á stórar fjárhagslega íþyngjandi ákvarðanir, þannig að afskipti Nordic Partners af rekstrinum eru þegar hafin.

Áætluð sala 400 milljónir evra

Nordic Group er m.a. með rekstur í Litháen, Lettlandi og Póllandi. Eftir samrunann við Hame mun félagið framleiða 170 þúsund tonn af matvörum og yfir 100 milljónir lítra af drykkjarvörum árlega. Áætluð heildarsala er um 400 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 40 milljörðum króna.

Tékkneska fréttastofan ÈTK vitnar í dag í Leos Novotny, stjórnarformann Hame og eigandi helmings hlutafjár, að Nordic Partners hafi einnig áhuga á fyrirtækinu Otomac, sem er stærsti aðili í kjötvinnslu í Tékklandi.