Seðlabanki Bandaríkjanna mun tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sína í kvöld, en bankinn lækkaði vexti óvænt úr 4,25% í 3,50% í síðustu viku að sögn Morgunkorns Glitnis. Greiningaraðilar telja mun meiri líkur á 50 punkta lækkun en 25 og verðlagning framvirkra samninga segir sömu sögu. Í því samhengi hafa borist athyglisverðar fréttir af bandarísku hagkerfi í vikunni, en þær benda til að heldur hafi hallað á ógæfuhliðina í bandarísku efnahagslífi.

CaseShiller 20 húsnæðisvísitalan, sem mælir verðmæti íbúðaverðs á 20 stórborgarsvæðum um öll Bandaríkin, lækkaði um 2,1% í nóvember frá fyrra mánuði og hefur hún lækkað um 7,7% frá sama tíma fyrra árs. Er þetta nokkru meiri lækkun en almennt var gert ráð fyrir. Vísitala væntinga bandarískra neytenda hefur lækkað undanfarna mánuði og lækkaði hún lítillega í janúar. Mældist vísitalan 87,9 stig, en til samanburðar var hún 110,2 stig í janúar 2007. Heldur jákvæðari fréttir bárust þó af eftirspurn varanlegra framleiðsluvara, en sá mælikvarði þykir gefa ágæta mynd af þróun fjárfestingar. Aukning á pöntunum á slíkum vörum nam um 5,2% frá fyrra mánuði, en það var nokkuð yfir væntingum. Hagvaxtarhorfur hafa versnað Hagvaxtarhorfur hafa versnað í Bandaríkjunum, en þjóðhagsreikningar fyrir 4. ársfjórðung verða birtir í dag. Ákveðinn grundvallarmunur er á markmiði Seðlabanka Bandaríkjanna annars vegar, og t.d. Seðlabanka Íslands og Evrópska seðlabankanum hins vegar. Þeir síðarnefndu starfa eftir verðbólgumarkmiði, en Seðlabanka Bandaríkjanna er gert að horfa til þátta á borð við atvinnuleysi og lága skammtímavexti, ásamt því að halda verðbólgu í skefjum. Reiknað er með 1,2% hagvexti á 4. ársfjórðungi, en gangi sú spá eftir er ljóst að verulega hægir á hagvexti í Bandaríkjunum að því er segir í Morgunkorni Glitnis.