Aðilar vinnumarkaðarins bíða eftir útspili ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna eftir fund þessara aðila í Ráðherrabústaðnum í dag. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vonast eftir því að ríkisstjórnin gefi svör fyrr en síðar.

Vilhjálmur segist ekki hafa átt von á því að ríkisstjórnin gæfi svör á fundinum í hádeginu. Hann segir að fundurinn hafi verið eins og við mátti búast. Þar hafi aðilar vinnumarkaðarins skýrt nánar sínar áherslur og farið var yfir málin.

Viðsemjendur hafa, eins og kunnugt er, komið sér saman um megin útlínur launaliðs nýrra kjarasamninga. Áfram verður unnið að samningagerðinni í dag. Vilhjálmur á von á því að samningarnir verði tilbúnir til undirritunar síðdegis á morgun.

Ekki verður hins vegar ritað undir fyrr en ríkisstjórnin hefur kynnt sínar áherslur og aðilar orðið sammála um þær. Vilhjálmur segir að ríkisstjórnin þyrfti að vera tilbúin með sín útspil í hádeginu.