Þess er beðið í Valhöll að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, upplýsi um framtíð sína í borgarstjórn. Upphaflega var talið að hann gæfi út yfirlýsingar um eitt leytið í dag en það hefur dregist.

Borgarstjórnarhópur sjálfstæðismanna hittist í Valhöll í hádeginu í dag á reglubundnum fundi. Þar var staða Vilhjálms einnig rædd. Fundurinn stendur enn, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins, en þó hafa að minnsta kosti tveir borgarfulltrúar yfirgefið fundinn, þær Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Jórunn Frímannsdóttir.

Gert er ráð fyrir því að fundi ljúki fljótlega og að Vilhjálmur muni upplýsa um áform sín.