Reiknað er með að ráðherra efnahagsmála í Frakklandi muni senda frá sér yfirlýsingu í dag vegna hins stórfellda svikamáls sem upp er komið hjá hinum fornfræga banka, Société Générale.

Ábyrgur fyrir þeim er Jerome Kerviel, 31 árs gamall Frakki. Að loknu viðskiptafræðinámi frá Nantes-háskóla útskrifaðist Kerviel árið 2000 með meistaragráðu í fjárstýringu frá Lumière-háskóla í Lyon, og var lýst sem frábærum námsmanni. Hann var ráðinn til starfa hjá bankanum í kjölfarið, sumarið 2000 og vann sig þar upp með hægð. Starfaði hann m.a. við bakvinnslu og öðlaðist þar þekkingu sem gerði honum síðar meir kleift að dylja svik sín. Eftir að hann fékk stöðuhækkun árið 2004 og gerður að miðlara í þeirri deild bankans sem nefnd er Delta-einn, er sérhæfir sig í ýmsum flóknum fjármálagjörningum, fékkst hann m.a. við áætlunarviðskipti, skiptasamninga, umsjón kauphallarsjóða o.fl.Tvennum sögum fer þó af ágæti hans, allt frá því að vera lýst sem meðalljóni í að vera kallaður „tölvusnillingur”. Samanlagaðar tekjur hans og bónusgreiðslur voru undir 10 milljónum króna á ári og hann mun ekki hafa hagnast sjálfur á svikum sínum. Þó telja sumir að hann hafi ætlað sér að reyna að hækka bónusgreiðslur sínar með því að græða fyrir bankans hönd. Bankinn uppgötvaði misferlið 19. janúar sl. og seldu eignir með leynd í kjölfarið. Búið er að reka 5-6 yfirmenn Kerviel, sem áttu að fylgjast með að allt væru með felldu.

Bjó til sýndarbanka

Kerviel bar að fylgjast með verðbréfasafni bankans og veðja í öfuga átt, til að lágmarka áhættu fyrir eigin reikning bankans, en fór upp á sitt eindæmi að kaupa einfalda framtíðarsamninga, án undirliggjandi valréttar, í evrópsku hlutabréfavísitölum. Veðjaði hann á hvort CAC40-vísitalan í Frakklandi eða DAX-hlutabréfavísitalan í Þýskalandi færu upp eða niður á tilteknum degi. Án fyrirliggjandi ástæðu tók hann þá afdrifaríku ákvörðun í ársbyrjun að breyta um fjárfestingarstefnu í ársbyrjun, þ.e. fór úr skortstöðu árið 2007 í gnóttstöðu

Talsmenn Société Générale segja að í raun hafi Kerviel búið til „sýndarbanka” innan hins raunverulega banka, þannig að hver einustu viðskipti sem hann gerði um eins árs skeið voru jöfnuð út með tilbúnum viðskiptum. Við hefðbundið innra eftirlit 18. janúar komu í ljós viðskipti sem fóru fram úr heimildum bankans og þegar haft var samband við þann sem skráður var fyrir viðskiptunum kom hann af fjöllum. Í kjölfarið fór af stað atburðarás sem m.a. er talin hafa haft áhrif á þá óvæntu ákvörðun yfirmanna bandaríska seðlabankans að lækka stýrivexti í vikunni. Yfirmenn Société Générale yfirheyrðu Kerviel í sex klukkustundir eftir að svikin urðu ljós en hann mun hafa verið sannfærður um ágæti fjárfestingarstefnu sinni og reynt ákaft að fullvissa þá um að ef henni yrði haldið til streitu myndi bankinn hagnast umtalsvert.

Var alltaf í vinnunni

Getgátur hafa verið um að Kerviel hafi átt við örðugleika að etja í einkalífinu og honum lýst sem viðkvæmum manni og fráleitt einhverri stjörnu á sínu sviði. Ekki aðeins hefur hann glatað vinum í raunheimum, því erlendir fjölmiðlar hafa greint frá því að á samskiptasíðunni Facebook, þar sem hann var skráður, hafi fjöldi skráðra vina hans þar farið úr ellefu í fjóra eftir að hann var nefndur opinberlega sem svikahrappur.

Í strjálum frístundum sínum iðkaði Kerviel judó og þótti það fær að hann var fenginn til að kenna börnum íþróttina. Hann mun einnig hafa haft áhuga á siglingum. Kerviel bjó í látlausri tveggja herbergja íbúð í fremur dýru úthverfi Parísarborgar, Neuilly-sur-Seine, spölkorn frá skrifstofum hans í La Defense. Þegar blaðamenn Telegraph ræddu við nágranna hans í gær sagði einn þeirra: „Við sjáum hann mjög sjaldan. Hann er alltaf í vinnunni.”