Sigurður Tómasson hóf störf síðustu mánaðarmót sem verkefnastjóri í framtaksfjárfestingum hjá VEX. „Við fjárfestum í óskráðum fyrirtækjum allt frá vaxtarstigi til stærri stöndugra félaga. Sem eigendur komum við að stjórnum félaga og vinnum náið með stjórnendum að því að efla félögin til langs tíma með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Það er nóg í pípunum hjá okkur um þessar mundir þannig fyrstu vikurnar hafa verið á svipuðum nótum og í gamla starfinu sem er bara skemmtilegt" segir Sigurður.

McKinsey gott veganesti

Hjá McKinsey starfaði hann náið með mismunandi fyrirtækjum að ýmsum stórum verkefnum. „Þetta tekur oft á. Við komum iðulega inn í fyrirtækin þegar mikið liggur við og þurfum því að vinna hratt.  Eðli þjónustunnar sem við veitum er þannig að við ráðleggjum fyrirtækjum með stórar og stefnumarkandi ákvarðanir. Fyrir COVID voru ferðalög einnig stór partur af starfinu en sem dæmi var ég tíu mánuði erlendis fyrsta árið mitt. Þá þarf að hafa sérstaklega fyrir því að halda tengingu við fólkið sitt heima."

Sigurður segir tímann hjá McKinsey hafa verið frábæra reynslu og gott veganesti fyrir nýja starfsvettvanginn. „Í fyrsta lagi skiptir miklu máli að setja sig hratt inn í hlutina og komast að kjarna málsins. Í öðru lagi gera McKinsey miklar kröfur, allt frá því hvernig við skipuleggjum okkur og nálgumst verkefni, yfir í skrifleg samskipti og hvernig trúnaði er gætt. Loks vinnur maður frá fyrsta degi með forstjórum og framkvæmdastjórn fyrirtækja sem er mikill skóli. Það var virkilega gott að kynnast slíkum vinnubrögðum beint eftir framhaldsnám og vinna með jafnfrábæru fólki og McKinsey hefur á að skipa."

Sigurður segir það talsverð viðbrigði að fara úr ráðgjafahlutverkinu og yfir í að taka ákvarðanir hvað varðar eigin starfsemi. „Þó ég sé aðeins búinn að vera tæpan mánuð í nýja starfinu sé ég strax muninn við að sitja núna hinum megin við borðið í stað þess að vera að mæla með einhverri ákvarðanatöku. Það að taka endanlegu ákvörðunina krefst öðruvísi hugsunarháttar og vinnubragða."

Kaupmannahöfn hin fullkomna borg

Sigurður segir Kaupmannahöfn vera hina fullkomnu borg og lífið þar hafa verið yndislegt - andrúmsloftið sé svo afslappað. Hann hafi komið sér upp þéttu félagsneti þar sem hann talar um sem fjölskylduna sína í Danmörku sem er honum ekki síður mikilvæg en fjölskyldan heima á Íslandi. Engu að síður hafi tækifærið til að ganga til liðs við VEX verið of gott til að líta framhjá.

„Ég vissi alltaf að ég kæmi heim á endanum og fann alltaf mjög sterkt í mínu fyrra starfi að þegar við vorum að vinna fyrir íslenska skjólstæðinga náði ég alltaf að kreista úr mér auka 10%. Þetta snérist meira um að bíða eftir rétta tækifærinu. VEX er nýtt fyrirtæki á spennandi vegferð með sterka bakhjarla og mér finnst að hérna geti ég sameinað áhuga minn á fyrirtækjarekstri og að byggja upp félag sem getur haft áhrif á íslenskt atvinnulíf," segir Sigurður.

Rökræðir við bróður sinn

Undanfarin ár hefur Sigurður ekki haft jafnmikinn tíma aflögu til að sinna áhugamálum eins og hann hefði viljað. „Það er alltaf gott að komast í golf eða á skíði en utan þess finnst mér skemmtilegast að sitja í sófanum og rökræða við bróður minn eða vini um hluti sem við vitum ekkert um og bannað að googla!"

Kærasta Sigurðar heitir Guðrún Olsen en hún býr enn í Kaupmannahöfn og starfar hjá Boston Consulting Group. Sigurður stendur í ströngu þessa dagana við að fóta sig í nýju starfi og koma sér fyrir í nýrri íbúð. „Það voru mikil tímamót að skipta um vinnu og flytja heim en hápunktur ársins verður án efa þegar barn bróður míns kemur í heiminn á næstu dögum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .