Hátíðin Reykjavík Bacon Festival sem haldin var á Skólavörðustíg þann 7. september síðastliðinn tókst vel en um 25.000 manns á öllum aldri komu saman til að gleðjast á einni stærstu matarhátíð sem haldin hefur verið hér á landi.

Í ár söfnuðust rúmar tvær milljónir króna sem renna til kaupa á tveimur þráðlausum hjartasíritum sem verða afhentir hjartadeild Landspítalans við formlega athöfn síðar í þessum mánuði.

„Við í Beikonbræðralaginu viljum sýna hjartadeildinni og öllu því frábæra starfsfólki sem þar vinnur þakklæti fyrir gott starf við afar erfiðar aðstæður á tímum niðurskurðar. Við viljum þakka styrktaraðilum okkar fyrir veittan stuðning og ekki síst þeim fjölmörgu veitingastöðum sem tóku þátt í þessu með okkur. Án þeirra aðkomu hefði hátíðin ekki orðið að veruleika en einnig viljum við þakka íslensku þjóðinni fyrir að koma á hátíðina og leggja málefninu lið”, segir Ragnar Þór Ingólfsson beikonbróðir.

„Fyrir hönd hjartadeildar Landspítalans vil ég þakka þeim sem stóðu að Beikonhátíðinni í Reykjavík fyrir stuðning við að bæta tækjabúnað fyrir hjartasjúklinga á deildinni með því að gefa tvo þráðlausa hjartasírita. Þetta er mikilvægur búnaður og kemur sér því afar vel. Hjartadeild hefur ekki farið varhluta af þeim mikla niðurskurði sem hefur verið á spítalanum síðastliðinn ár” segir Bylgja Kærnested hjúkrunardeildarstjóri Hjartadeildar Landspítalans.