Velgengni nýrrar beikonskurðarvélar, IBS 4600, sýnir að vöruþróun og nýsköpun borgar sig. Þetta sagði Theo Hoen, forstjóri Marels, á kynningarfundi um afkomu fyrsta ársfjórðungs. Félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt í gær og var kynnt af forstjóra og Eric Kaman, fjármálastjóra, í dag.

Hagnaður Marels nam um 8,8 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi. Tekjur jukust um 19,1% frá sama tímabili í fyrra. Á kynningarfundinum kom fram að ársfjórðungurinn var þó ekki jafn góður og fjórði ársfjórðungur síðasta árs og sagði Theo Hoen að hann hafi verið sérstaklega góður fyrir Marel.

Vöxtur felst í innri vexti

Forstjóri Marel segir að vöxtur Marel til næstu fimm ára muni aðallega felast í innri vexti en ekki yfirtökum. Áfram verði unnið að þróun nýrrar tækni sem mun skapa aukin sóknarfæri næstu árin. Ef yfirtökur á öðrum fyrirtækjum passa inn í þær áætlanir og hraða ferli sem unnið er að sé ekki hægt að útiloka að af þeim verði. Hins vegar sé nóg af tækifærum á mörkuðum sem Marel starfar nú þegar á og stefnan sé að auka hlutdeild félagsins á þeim mörkuðum.

Pantanabók stækkað

Pantanabók félagsins hefur stækkað undanfarna fjórðunga og virði hennar hefur aldrei verið hærra. Á fundinum kom fram að vöxtur í pöntunum hafi meðal annars verið frá Rússlandi, Kína, Suður-Ameríku og Evrópu. Þá hafi framleiðendur í Bandaríkjunum tekið vel í áðurnefnda beikonskurðarvél.

Þess má geta að Bandaríkin hafa verið nefnd höfuðríki beikonsins.