Útflæði beinnar erlendrar fjárfestingar aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) árið 2007 nam 1,82 billjónum Bandaríkjadala og hefur aldrei verið meiri. Aukningin á milli ára var 50%, að því er fram kemur í nýjum gögnum sem OECD birti í gær.

Þetta er jafnframt mesta aukning á milli ára (52%) frá því á árunum 1998 (59%) og 1999 (61%).

Hins vegar er reiknað með að verulega muni draga úr útflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á þessu ári, samkvæmt spá OECD. Ef áframhald verður á niðursveiflu í samrunum og yfirtökum á heimsvísu – andvirði slíkra samninga hefur dregist saman um 33% það sem af er þessu ári – gæti útflæði beinna erlendra fjárfestinga minnkað í 1,14 billjónir dala á árinu 2008.

Átta ríki meira en tvöfölduðu hjá sér útflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á liðnu ári. Ísland skipaði sér í hóp með þeim ríkjum og nam aukningin tæplega 135% á milli ára – úr 5,3 milljörðum dala í 12,5 milljarða dala.

Á meðal aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) jókst útflæði beinnar erlendrar fjárfestingar mest í Bretland á milli ára, en hún nam samtals um 230 milljörðum dala árið 2007, miðað við tæplega 80 milljarða dala árið á undan.

Öflugur vöxtur var einnig í innflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á meðal aðildarríkja OECD á árinu 2007. Samtals nam bein erlend fjárfesting innan aðildarríkja OECD 1,37 billjónum dala á síðasta ári – sem var 31% aukning frá því árið 2006.

Innflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi stóð nánast í stað á milli ára; hún nam 3,8 milljörðum dala árið 2007, borið saman við 4 milljarða dala árið á undan.

Innfæði beinnar erlendrar fjárfestingar á Spáni jókst um 80% á milli ára, og má aukninguna að hluta til rekja til stórrar ítalskrar fjárfestingar í raforkuiðnaði landsins.

Bein erlend fjárfesting í japanska hagkerfinu var töluvert mikil á sögulegan mælikvarða; eftir að hafa verið neikvæð um 6,5 milljarða dala árið 2006 nam hún 22,5 milljörðum dala á síðasta ári.

Aukningin skýrist einkum af stórum erlendum fjárfestingum í fjármálageira landsins og einnig fjárfestingum erlendra dótturfélaga á fasteignamarkaðnum.

Yfirtakan á hollenska bankanum ABN Amro síðastliðið haust varð einnig til þess að innflæði beinnar erlendrar fjárfestingar í Hollandi hefur aldrei verið meira. Aukningin á milli ára nam ríflega 1.100% – úr 8 milljörðum dala í tæplega hundrað milljarða dala.