Viðskiptaþing 2017 stendur nú yfir. Yfirskrift þingsins er „Börn náttúrunnar: framtíð auðlindagreina á Íslandi.“ Hér er hægt að fylgjast með beinni útsendingu.

Hægt er að horfa á ræðu Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, klukkan 15 í boði Viðskiptaráðs.

Aðalræðumaður er Wal van Lierop, framtaksfjárfestir sem leggur sérstaka áherslu á auðlindageirann. Hann býr yfir fjölbreyttri alþjóðlegri reynslu sem forstjóri, ráðgjafi og fræðimaður. Wal er einn stofnenda Chrysalix sem er kanadískur nýsköpunarsjóður á sviðum nýrra tæknilausna og auðlindanýtingar.

Auk þess munu Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpa þingið.

Örmyndbönd verða frumsýnd á þinginu þar sem valinkunnir fulltrúar auðlindageirans þræða áskoranir og tækifæri. Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA og Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, munu svo halda örerindi um framtíð auðlindagreina á Íslandi.

Að lokum verða viðfangsefni þingsins rædd af Björtu Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Viðhorf gesta þingsins verða einnig nýtt inn í umræðurnar með gagnvirkum hætti.