Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á umsókn konu um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga vegna vinnuslyss. Konan hafði fótbrotnað við að borga í stöðumæli í matarhléi sínu. SÍ höfnuðu bótaskyldu en úrskurðarnefndin féllst ekki á túlkun stjórnvaldsins.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að í júlí 2018 hafi konan tilkynnt slys til SÍ. Slysdagur eða staðsetning er ekki tilgreind. Þar segir að konan hafi fengið leyfi hjá yfirmanni sínum til að fara út í matartíma sínum til að borga í stöðumæli til að koma í veg fyrir að hún fengi ekki sekt vegna stöðubrots. Við þá athöfn hafi hún dottið og brotið bein.

Konan tilkynnti vinnuslys til SÍ og krafðist bóta. SÍ taldi ekki um vinnuslys að ræða. Var það annars vegar á þeim grundvelli að slysið hefði átt sér stað fyrir utan vinnu og hins vegar þar sem að háttsemi konunnar hafi ekki verið í nægum tengslum við starf hennar.

Á þetta féllst úrskurðarnefndin ekki. Taldi hún ekki tækt að túlka hugtakið „vinnustaður“ svo þröngt að það næði ekki til nærumhverfis hans. Þá yrði athöfnin að ganga utandyra við vinnustað sinn í matartíma ekki túlkuð á þann hátt að hún tengdist ekki vinnu hennar. Af þeim sökum var ákvörðun SÍ felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að beiðni konunnar til meðferðar á ný.