Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, Katrín Júlíusdóttir, segir athugasemdir FATF ekki beinast að íslenskum fjármálafyrirtækjum, en Ísland hefur verið sett á gráan lista FATF yfir lönd sem sæta þurfa sérstöku eftirliti vegna þess að þau uppfylla ekki skilyrði um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Katrín segir innlend fjármálafyrirtæki hafa lagt sig fram við að uppfylla öll skilyrði sem innlendir og erlendir eftirlitsaðilar setji hvað þennan málaflokk varðar.

„Mat á þessu þáttum er sífellt í skoðun hjá fjármálafyrirtækjum og þessi mál hafa verið hluti af verkferlum þeirra um árabil. Ekki síst vegna þess að innan sjálfs fjármálageirans, bæði hér heima sem og erlendis, er almenn og vaxandi krafa um þessi hlutir séu í lagi,“ segir Katrín.

Hún segir að vera Íslands á listanum muni ekki hafa mikil áhrif á starfsemi fjármálafyrirtækja. „Það er ekki að fullu ljóst hver áhrifin verða og það veltur líka á því hve lengi við verðum á listanum. Það kann að vera að erlendir aðilar sem eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki þurfi að gera áreiðanleikakönnun á viðskiptunum. Þetta á ekki við um öll viðskipti heldur veltur það á eðli viðskiptanna hverju sinni.“

Katrín er jafnframt bjartsýn á að Ísland verði ekki lengi á listanum. „Stjórnvöld hafa lyft grettistaki í þessum málum síðastliðin tvö ár og það eru aðeins þrjú atriði sem standa útaf. Ef stjórnvöld vinna áfram af sama krafti og þau hafa gert undanfarin misseri, er ég bjartsýn á að Ísland verði tekið af listanum fljótlega,“ segir Katrín Júlíusdóttir.