*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 7. maí 2018 11:44

Beinlaust kjöt reiknað með beini

Neytendasamtökin og SVÞ gagnrýna að tollkvótar á kjöti verði reiknaðir að kröfu bænda með beini sem skerði innflutt magn.

Ritstjórn
Þriðjungsskerðing yrði á innfluttu kjöti samkvæmt tollkvótum ef gert væri ráð fyrir að heimilaður tollkvóti innflutnings yrði miðaður við að eiga um kjöt með beini.

Neytendasamtökin og SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna harðlega boðaðar breytingar á úthlutun tollkvóta þar sem lagt er til að innflutningur á kjöti verði reiknaður sem kjöt með beini en ekki hreint kjöt eins og nú er gert. Segja samtökin að það þýði að heimilt innflutningsmagn muni skerðast um allt að þriðjung.

Í ályktun Búnaðarþing frá því í byrjun mars kom fram krafa um að farið verði að tillögu starfshóps landbúnaðarráðherra fyrri ríkisstjórnar sem gæti komið til móts við bændur vegna áhrifa af nýföllnum dómi EFTA dómstólsins um ákvæði EES samningsins um að heimila skuli innflutning á hráu kjöti annars vegar og hins vegar vegna samninga við ESB um niðurfellingar tolla.

Meðal krafna bænda var að innflutt kjöt yrði „umreiknað í ígildi kjöts með beini þegar um beinlausar og unnar afurðir er að ræða, við útreikninga á nýtingu gildandi tollkvóta.“

Vilja fá upplýsingar um fyrri útreikninga

Nú hafa bæði Neytendasamtökin og SVÞ óskað eftir upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu um það hvernig staðið hafi verið að útreikningum á tollkvótum á kjöti allt frá því að fyrri samningar við Evrópusambandið um innflutning á landbúnaðarvörum voru gerðir árið 2007.

Samtökin telja mikilvægt að fá úr því skorið hvort slíkir kvótar á kjöti hafi til þessa verið reiknaðir með beini eða án. Í umfjöllun Morgunblaðsins nýlega var fullyrt að hingað til hafi verið reiknað út frá því að um beinlaust kjöt væri að ræða, sem væri ólíkt því sem gerist víðast hvar annars staðar.

Þýðir þriðjungsskerðingu á innfluttu magni

Ljóst er að boðuð breyting mun fela í sér verulega skerðingu á því magni sem nú er heimilað að flytja inn samkvæmt tollkvótum eða um allt að þriðjung segja samtökin. Ávinningur neytenda yrði því mun minni en gert var ráð fyrir sem er að mati samtakanna óásættanlegt.

Tilgangur hinna auknu tollkvóta er tvíþættur segja samtökin. Annars vegar að veita neytendum aðgang að meira vöruúrvali á samkeppnishæfu verði. Hins vegar að veita innlendri framleiðslu samkeppnislegt aðhald. Með þeim áformum sem stjórnvöld hafa nú kynnt taka stjórnvöld þrönga sérhagsmuni enn á ný fram yfir heildarhagsmuni.